141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekki nóg eitt og sér að menn komi hingað og segi: Það sem þarf að vera til staðar er einhver rammi. Það sem þarf að ræða í því samhengi er inntak málsins. Hvert er hið efnislega inntak þess ramma sem menn eru að setja hér um sölu bankanna? Hefur einhver svarað grundvallarspurningum sem hafa verið mikið ræddar í þinginu frá því að síðustu sölur á ríkisbönkum áttu sér stað, eins og til dæmis spurningum um hlut kjölfestufjárfesta, dreift eignarhald, hæfi eigenda o.s.frv.? Er tekið á einhverjum slíkum þáttum í þessu máli? Nei, þetta er einfaldlega allt afhent ráðherranum, honum er veitt heimild til þess að selja. Þetta er ekkert annað en innihaldslaus rammi. Þetta er ekkert annað en innihaldslaus heimild til ráðherrans til að selja. Hér er í raun og veru ekki sagt neitt annað en: Það á að selja hæstbjóðanda.

Það dugar ekki að koma með frumvarp og skreyta sig og segja: Allt það sem áður skorti er nú komið með því að ramminn er til staðar. Það vantar allt (Forseti hringir.) innihald í rammann og pólitísk umræða hefur ekki farið fram.