141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

rannsóknarnefndir.

416. mál
[11:13]
Horfa

Róbert Marshall (U):

Virðulegur forseti. Í þessari grein er fjallað um skaðleysi nefndarmanna. Þetta er sú grein sem ég set ákveðinn fyrirvara við vegna þess að mér þykir hún ganga nokkuð langt. Hér er verið að tryggja það að nefndarmenn í rannsóknarnefndum geti sett fram álitaefni eða skýrslur án þess að eiga það á hættu að verða sóttir til saka eða stefnt fyrir í einkamáli og þar fram eftir götunum. Auðvitað þurfa menn að virða það, en það má hins vegar ekki setja þetta þannig fram að um eins konar dómstól verði að ræða í þessum rannsóknarnefndum. Það verður að gefa viðfangsefnum rannsókna tækifæri til þess að fá ummæli dæmd ómerk, að þau verði látin niður falla o.s.frv., þannig að þetta verði ekki endanleg niðurstaða. Að því er unnið innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ég treysti því að milli 2. og 3. umr. munum við ná lendingu í því, en þangað til greiði ég ekki atkvæði við þessa grein.