141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[19:02]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er stundum þannig að maður notar táknmál hvort heldur sem er í þessum stól eða annars staðar, þannig að „í dag“ þýðir kannski ekki nákvæmlega dags dató.

Við erum að leggja til að fæðingarorlofið verði smám saman lengt þannig að eðlileg samfella skapist í daglegu lífi barna og ég held að það skipti verulega miklu máli fyrir barnið. Það getur vel verið að hækkun á þakinu skipti meira máli í tengslum við jafnrétti, og það hefur komið fram fyrir nefndinni.

Mig langar aðeins að gera að umtalsefni það sem hv. þingmaður talar hátt og ákveðið um, að við verðum að hafa efni á því sem við erum að gera. Það er að sjálfsögðu alveg hárrétt. Þess vegna erum við að gera þetta nákvæmlega núna, vegna þess að við sjáum fram á betri tíma í ríkisfjármálum. Þess vegna erum við að fara af stað með markvissa áætlun í að byggja upp fæðingarorlofið.

Mig langar líka að benda á að það er alveg sama hvað er lagt hér til, hvort sem það eru Vaðlaheiðargöng eða fjárfestingaráætlun með ýmiss konar fjárfestingum, bæði í gamaldags og nútímaleg verkefni, þá getur stjórnarandstaðan ekki verið sátt — hagvöxturinn þarf að vera nákvæmlega eins og hún vill hafa hann og þau verkefni verða að vera nákvæmlega eins og hún vill hafa þau.

Okkar verkefni, sem byggja að mörgu leyti á nýrri hugsun, eru talin einskis virði. Fjárfestingaráætlunin er líka ómöguleg, þannig að það er afar erfitt að gera hv. þingmanni og hennar flokki og stjórnarandstöðunni til hæfis, það er bara þannig. Við erum að fara af stað í framkvæmdir vítt og breitt um landið. Það á að fara að virkja á Norðausturlandi og það er ýmislegt í gangi. En það er allt saman talað niður þannig að ég veit ekki alveg hvernig við eigum að geta bent hv. þingmanni á það að nú er lag til þess að fara í góðar aðgerðir eins og það að bæta fæðingarorlofið.