141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

barnalög.

476. mál
[20:47]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er veitt sáttameðferð í dag. Sérfræðingar á vegum sýslumannsembætta um allt land veittu árið 2009 175 pörum sáttameðferð, það árið eingöngu. Það sem greinin gengur út á er að sáttameðferð verði skylda og að foreldrar geti leitað hennar hjá sýslumönnum eftir sem áður og hjá öðrum aðilum. Aðilar á einkamarkaði bjóða viðurkennda sáttameðferð. Það eina sem gerist ef lögin taka gildi 1. janúar 2013 er að mikilvægar réttarbætur taka gildi eins og við sögðum að þær ættu að gera og foreldrar munu fá sáttameðferð. Það er það sem gerist.

Varðandi kostnaðinn nefnir hæstv. innanríkisráðherra upphæðina 60 milljónir. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins með þessu frumvarpi sem hæstv. innanríkisráðherra leggur fram er kostnaðarmat upp á 35–40 milljónir. Hvort eigum við að taka trúanlegt? Fjárlagaskrifstofa ráðuneytisins segir 35–40 milljónir (Forseti hringir.) og það liggur fyrir að til þessara verkefna eru samkvæmt greinargerð frumvarpsins til 30 milljónir.