141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

fæðingar- og foreldraorlof.

496. mál
[21:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að stafa út með hvaða hætti staðið verði að því að lengja fæðingarorlofið úr níu mánuðum í 12 og fæðingarstyrkinn með sambærilegum hætti. Ég hef áður gert grein fyrir því að það er að mati okkar sjálfstæðismanna óskynsamleg forgangsröðun sem hér er verið að leggja til. Það er miklu skynsamlegra að hækka greiðslurnar vegna þess að það mun fyrst og fremst hafa áhrif á það hvort til að mynda feður fara í fæðingarorlof eður ei.

Við vitum að því miður hefur sú þróun orðið á síðustu árum eftir skerðingarnar að þátttaka feðra í fæðingarorlofi hefur mjög minnkað. Það er mjög slæmt fyrir barnið og út frá jafnréttissjónarmiðum. Með þeirri forgangsröðun sem hér er lögð til er ekki verið að takast á við þennan vanda, það er verið að ýta honum inn í framtíðina til úrlausnar fyrir önnur stjórnvöld. Hér er lögð til þessi lenging sem þýðir að jafnaði (Forseti hringir.) 1 milljarð kr. í kostnaðarauka fyrir ríkissjóð fyrir hvern mánuð sem fæðingarorlofið er lengt, í allt 3 milljarða kr. Þetta verða menn að hafa í huga.