141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta en menn tala um hvað eigi að vera í þingtíðindum. Ég vil mótmæla algjörlega þessari túlkun hæstv. ráðherra á því af hverju kostnaðurinn hefur komið til út af SpKef. Það er einfaldlega alrangt og það veit hann. Ef hæstv. ráðherra hefur ekkert að fela hvet ég hann til að beita sér fyrir því að spurningum í tengslum við SpKef og Byr verði svarað. Þær hafa legið núna í ráðuneyti fjármála í marga mánuði, að vísu hef ég spurst fyrir um þetta í nokkur ár, og hæstv. ráðherra hlýtur miðað við yfirlýsingar sínar hér að beita sér fyrir því að þeim verði svarað. Hann svaraði þeim illa, seint og ekki á fullnægjandi hátt þegar hann sjálfur var í því ráðuneyti en ég veit að hann er voldugur maður og mun án nokkurs vafa geta beitt sér fyrir því að spurningunum verði svarað.