141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

loftslagsmál.

381. mál
[02:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Hér standa ekki deilur um efnisþætti máls, að minnsta kosti ekki verulegar, en það er ágreiningur um hinn stjórnskipulega þátt. Við höfum skoðað í tveimur nefndum þau skapalón sem lögspekingar hafa gert okkur um þetta mál og þar á meðal þann ramma sem Stefán Már Stefánsson og Björg Thorarensen bjuggu til handa okkur í vor og ekki síður þau fyrirmæli sem við fengum frá lögfræðinganefndinni árið 1992 í upphafi þessa ágreinings um stjórnarskrá og um hina venjuhelguðu reglu. Þar er tekið fram í þremur liðum að framsal frá Alþingi sé heimilt eða valddeiling ef valdið er vel afmarkað eða valdið er á takmörkuðu sviði og ef valdið er ekki verulega íþyngjandi fyrir íslenska aðila. Ég tel fráleitt að halda því fram að farið sé út fyrir þessi skilyrði hér og hvet menn til þess að samþykkja frumvarpið í eins mikilli samstöðu og hægt er.