141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:15]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Afspyrnuslæm reynsla af Hellisheiðarvirkjun fyrir höfuðborgarbúa verður að vera leiðarljós í þessu máli. 25 þús. tonn af brennisteinsvetni sem fara hér út í loftið á hverju ári skapa heilsufarshættu fyrir íbúa og hér er verið að tala um að bæta við átta virkjunum á þetta sama svæði. Það er ekki ásættanlegt að mínu mati og það ber að stöðva.

Hér er líka um að ræða Mývatn. Mývatn er eitthvert merkilegasta stöðuvatn í heimi og við Íslendingar berum ábyrgð á því. Það er vitað að virkjun við Bjarnarflag mun að líkindum eyðileggja Mývatn. Að því get ég ekki staðið.

Það er líka rangt sem hefur komið fram um að virkjunaraðilar á Reykjanesi hafi gengið vel um svæðið. Hver sá sem hefur ferðast um virkjunarsvæðin á Reykjanesi veit að þau eru eins og ruslahaugur á að líta með risastórum borplönum annars vegar og leifum af byggingum og boráætlunum hins vegar. Þessir aðilar munu ekki ganga vel um svæðið.