141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:32]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að við framsóknarmenn mundum að meginstefnu til fylgja niðurstöðu rammaáætlunar. Í umræðunni og umsagnarferlinu sem við samþykktum hefur komið fram að það væru einhver álitaefni, sérstaklega er varðaði Urriðafoss, og að við hefðum verið tilbúin til að skoða það, ekki síst í ljósi þess að, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni, það er mjög ólíklegt að Urriðafoss fari af stað. Við getum notað þann tíma til þess að fara betur yfir þau gögn. Þess vegna sitjum við hjá við tillöguna um Urriðafoss en um hinar tvær breytingartillögurnar sem snerta tvær efri af þessum þremur virkjunum í neðri hluta Þjórsár eru engin rök sem hníga að því að færa þá kosti úr nýtingarflokki í bið.

Sá misskilningur virðist enn uppi þrátt fyrir ítarlega umræðu hér í desember að það sé verið að setja af stað virkjun um leið og viðkomandi kostur er settur í nýtingarflokk. Það er hins vegar verið að fara með þá kosti í rannsóknarferli (Forseti hringir.) til að ganga úr skugga hvort það sé síðan skynsamlegt. Það er afar skynsamlegt að setja hina tvo kostina í nýtingarflokk og við framsóknarmenn styðjum það.