141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[12:00]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég er hér með vinnu verkefnisstjórnarinnar og faghópanna, niðurstöðu 2. áfanga rammaáætlunar, tæpar 200 síður þar sem ítarlega er farið yfir allar forsendur, öll vinnubrögð, alla þá gríðarlegu, faglegu vinnu sem átti sér stað og allir keppast við að róma.

Sú breytingartillaga sem við greiðum atkvæði um er enn ein tilraun okkar sjálfstæðismanna til að taka tillit til þeirra faglegu sjónarmiða sem hér koma fram og þeirrar faglegu vinnu sem allir róma svo mikið. Það er tilraun að reyna að afmá þau augljósu pólitísku fingraför sem ríkisstjórnarflokkarnir setja á málið og afleiðingar þess.