141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í ESB-viðræðunum.

[15:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra hefur verið afdráttarlaus um að fá þyrfti botn í Evrópusambandsmálið á þessu kjörtímabili, fyrir kosningar. Nú hefur ríkisstjórnin tilkynnt að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu verði sett í einhvers konar hægagang. Hæstv. utanríkisráðherra fullyrðir reyndar að þetta breyti ferlinu ekki á nokkurn hátt og hafi ekkert með innanflokksmál í Vinstri grænum að gera, ekkert með stöðu vinstri grænna eða afstöðu þeirra til Evrópusambandsins að gera.

Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að sú leið sem ríkisstjórnin hefur kynnt, þessi hægagangur svokallaði, sé ásættanleg niðurstaða í þessu máli á þessu kjörtímabili? Er hæstv. ráðherra sáttur við þetta sem lendingu í Evrópusambandsmálunum að loknu nærri því heilu kjörtímabili? Telur hæstv. ráðherra það þess virði að hv. þm. Jóni Bjarnasyni sé hent út úr utanríkismálanefnd til að ná þessari niðurstöðu með samstarfsflokknum?