141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þann 22. nóvember sl. átti ég orðastað við hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og ræddi þar um breytingar á stjórnarskránni og alveg sérstaklega frumvarp sem ég hef flutt ásamt fleirum um að gera breytingar á stjórnarskránni eingöngu með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá réði þjóðin hvernig stjórnarskrá hún vildi hafa.

Ég setti nokkuð há mörk. Þá stóð til að hv. þingmaður færi að hitta Feneyjanefndina svokölluðu og ég spurði hvort til greina kæmi að senda hugmyndir mínar um breytingar á stjórnarskránni til Feneyjanefndarinnar ásamt með hugmyndum stjórnlagaráðs. Hún svaraði því þannig til að henni þætti það alveg sjálfsagt og nú vil ég spyrja hvort það hafi gengið eftir. Ef ekki, er þá flötur á því að hv. nefnd sem hv. þingmaður stýrir beini því til Feneyjanefndarinnar að skoða jafnframt mínar hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá? Þá vildi ég sérstaklega að skoðuð yrðu mörkin, að 40 þingmenn ættu að samþykkja breytingar á stjórnarskrá og að yfir helmingur kjósenda, ekki þeir sem mæta á kjörstað heldur helmingur kjósenda yfirleitt, skyldi fallast á þær breytingar.

Það yrði þá gert í þeim anda að um breytingar á stjórnarskrá ætti alltaf að vera góð samstaða og að það hvað sett er í stjórnarskrá væri ekki ágreiningsefni. Þannig ætti að nást fram mikill meiri hluti þjóðarinnar til að samþykkja breytingar.