141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í gær var kynnt samkomulag stjórnarflokkanna þess efnis að hægja skuli á samningaferlinu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu fram að kosningum. Þetta er tímabundin ákvörðun og nemur einungis vinnu við fjórar samningsafstöður og lýtur ekki að því að fresta viðræðunum, hvað þá að slíta þeim. Þetta er því engin meiri háttar ákvörðun og leiðir að mörgu leyti að mínu mati af sjálfu sér.

Þar að auki tel ég bæði skynsamlegt og eðlilegt að gera þetta á þessum tímapunkti þegar það liggur fyrir að við munum ekki ljúka viðræðunum á kjörtímabilinu eins og við stefndum að og vonir stóðu vissulega til. Margt breytti því þó eins og við blasir.

Við erum fyrst og fremst að veita öllum flokkum og ekki síður kjósendum andrúm til þess að taka afstöðu til mikilvægustu kaflanna og ræða af yfirvegun. Það er stutt til kosninga, mörg mál í gangi og það er ekki skynsamlegt á þessum tímapunkti að opna tvo mikilvægustu kaflana sem snerta grundvallarhagsmuni íslensku þjóðarinnar, sjávarútvegsmál og landbúnaðarmál. Því er hvorki um að ræða frestun né formlegt hlé heldur verður einungis beðið með að opna þessa mikilvægustu kafla þar til eftir kosningar og gefa nýrri ríkisstjórn svigrúm til að koma að því að móta samningsafstöðuna í mikilvægustu málunum. Eftir sem áður erum við að ræða mikilvægasta og mesta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar í áratugi, þ.e. hvernig okkur tekst í gegnum þetta ferli að koma okkur inn í myntsamstarf og þar með nýjan stöðugleika með lágum vöxtum og gengismálum í lagi.

Það væri ólýðræðislegt og óskynsamlegt að tefla svo mikilvægu ferli í tvísýnu í aðdraganda kosninga og þess vegna tel ég að þessi leið hafi verið sú besta og líklegasta til að koma þessu mikilvæga máli í var og í heila höfn til kjósenda til að kjósa um fullgerðan samning að lokum þannig að allir atkvæðisbærir Íslendingar muni ákveða (Forseti hringir.) hvort við göngum í Evrópusambandið eða ekki en ekki með bellibrögðum nokkurra stjórnmálamanna á Alþingi. (Gripið fram í: … kosningar … í Alþingishúsinu.)