141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Ég held að við upphaf þessarar umræðu sé rétt að fara aðeins yfir stuðninginn í samfélaginu við Evrópusambandsumsókn hæstv. utanríkisráðherra. Mikill meiri hluti þjóðarinnar er andsnúinn Evrópusambandsaðild. Samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum vill mikill meiri hluti þjóðarinnar hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það er einungis meirihlutastuðningur við Evrópusambandsaðild og áframhaldandi viðræður hjá stuðningsfólki Samfylkingarinnar — og Bjartrar framtíðar sem er hliðarframboð Samfylkingarinnar. [Hlátur í þingsal.]

Nú er svo komið (Gripið fram í.) að hæstv. utanríkisráðherra talar um að það verði að koma málinu í var. Yfirlýsingin sem ríkisstjórnin sendi frá sér í gær var væntanlega til þess að koma málinu í var, eins og hæstv. utanríkisráðherra orðar það.

Hverjar eru raunverulegu breytingarnar?

Það á ekki að opna nýja kafla. Það stóð hvort eð er ekki til að opna þessa erfiðu kafla fyrr en í haust. Það á sem sagt að halda áfram vinnu við alla þá kafla sem eru opnir. Það á áfram að dæla fjármunum inn í íslenskt samfélag til að aðlaga íslenskt regluverk. Það er engin breyting. Það sem er merkilegast við þetta er að ef við skoðum ummæli hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur kemur hún inn á akkúrat það sem var málið. Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagði í viðtali við RÚV að VG hefði hefði verið beitt þrýstingi til að samþykkja ekki tillögu um að Alþingi legði umsóknina til hliðar. Þá verður þessi sýndartillaga til, þessi sýndarmennska. Þetta stóra leikrit sem er búið að vera í gangi í einn sólarhring verður til upp úr þessu. Í þeirri tillögu sem fyrir liggur var gert ráð fyrir að Alþingi tæki afstöðu til þess hvort Evrópusambandsumsóknin yrði lögð til hliðar og síðan ekki hafin aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. utanríkisráðherra og þingflokkur Samfylkingar (Forseti hringir.) með stuðningi Vinstri grænna er að koma Evrópusambandsmálinu í var fyrir meiri hluta þjóðarinnar.