141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að hægt verði á viðræðum við ESB.

[15:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hvað sem líður þeim fullyrðingum hv. þm. Bjarna Benediktssonar að krónan hafi verið sérstakur lífgjafi Íslands er rétt að það komi alveg skýrt fram að Seðlabanki Íslands lýsir mjög skilmerkilega í sinni ágætu skýrslu hvernig krónan er magnari og uppspretta sveiflna. Þeir sem ekki vilja taka upp evruna, þó að hv. þingmaður virðist hafa skipt um skoðun frá því fyrir kosningar 2009, verða með einhverjum hætti að leggja fram sitt plan. Hvar er það plan sem Sjálfstæðisflokkurinn talar fyrir? Ég hef hvergi heyrt það. Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis að eyða snjóhengjunni án þess að hún bráðni og fari sem hamfarahlaup yfir efnahagskerfið? Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að aflétta gjaldeyrishöftum?

Þau okkar sem telja að evran og aðild að Evrópusambandinu í framtíðinni sé heppileg leið fyrir Ísland höfum skýrt fyrir okkar leyti okkar leið, en það skortir á að þeir sem eru andstæðrar skoðunar leggi fram valkost. Það finnst mér skipta ákaflega miklu máli.

Hv. þingmenn spyrja hvað felist í þessu samkomulagi. Af hverju hafa menn ekki lesið það? Það er skýrt. Í fyrsta lagi segir þar að ekki verður unnið að samningsafstöðum í fjórum köflum fyrir kosningar, sjó, landi og tveimur sem tengjast sjó. (Gripið fram í.) Í öðru lagi að samninganefnd og embættismenn Evrópusambandsins haldi áfram að vinna að þeim köflum sem opnir eru. Í þriðja lagi að ekki verður ríkjaráðstefna.

Þetta er algjörlega skýrt og þarf ekkert um það að deila. Einn hv. þingmaður virtist telja að samningaferlið hefði tekið mjög langan tíma miðað við aðildarferli Noregs á sínum tíma. ESB hefur gjörbreytt sínu ferli síðan þá. Það hefur tekið upp rýnivinnu sem tefur ferlið um ár. Það hefur sömuleiðis tekið upp opnunar- og lokunarviðmið sem líka tefur ferlið um að minnsta kosti ár. Aðildarlöndin núna eru 27 en voru 12. Allt hefur það líka tafið ferlið.

Miðað við stöðuna held ég að hægt sé að fallast á að vel hefur verið haldið á þessum málum. Samninganefndin hefur unnið vel. (Forseti hringir.) Ég vísa því sérstaklega á bug sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði, að vísu ekki hér í ræðustóli heldur í útvarpi í gær, að það væri losaragangur á viðræðunum. Ég held að (Forseti hringir.) okkar góðu samningamenn eigi ekki skilið þá einkunn.