141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[16:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið menn um að snúa ekki út úr orðum mínum eða leggja þau út á annan veg en þau eru meint. Ég var að lýsa þeirri skoðun minni að ég hefði helst viljað vera algerlega laus við spilastarfsemi, en ég tók það fram að ég gerði mér grein fyrir því að því yrði ekki við komið. Ég er því ekki að leggja það til, alls ekki. Ég segi jafnframt að gæta þurfi að þeim aðilum sem eru fjármagnaðir með þessum hætti, þá horfi ég til dæmis til Landsbjargar. Ég er sjálfur með efasemdir um að við eigum að reisa háskólabyggingar með peningum frá happdrættum en það er framtíðarinnar að taka á því, ekki þessa þings heldur næsta. Í framtíðinni sæi ég fyrir mér að happdrættin yrðu rekin undir einu þaki. Ég er ekki að leggja það til núna. Ég ætlast ekki til þess eða óska eftir því við þingið að settar verði lagabreytingar í þá veru. Ég óskaði hins vegar eftir því að við tækjum þá umræðu.

Það sem ég er eingöngu að leggja til núna er að lítil skref verði stigin. Þetta eru agnarlitlir peningar og meira að segja allt of litlir, kynni einhver að segja, þegar við erum að tala um að meiri hlutinn af þeim færi í að fjármagna forvarnir og meðferð fólks sem hefur orðið illa úti vegna þessa. Það yrði að uppistöðu til gert í heilbrigðiskerfinu eða hjá SÁÁ sem hefur sérhæft sig á þessu sviði. Við erum að tala um að setja eitthvert örlítið brot af þessum fjármunum til slíkra aðila og það tel ég vera hið besta mál.

EES, já, við erum búin að skoða þetta. Norðmenn skoðuðu þetta heldur betur og lentu í miklum deilum og kærumálum út af þessu. Þeir vönduðu sig vel og unnu það mál. Við byggjum að öllu leyti á norskum fordæmum. (Forseti hringir.) Við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera.