141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

happdrætti.

477. mál
[18:15]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé þá verkefni allsherjarnefndar að fara mjög nákvæmlega yfir þetta mál og þau mörgu álitamál sem hafa komið fram í þingsal. Að mörgu leyti er ég, aldrei þessu vant, sammála þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig hér frá Sjálfstæðisflokknum um að fara varlega í þessu máli og bæta ekki við nýju ríkisbákni ef þess gerist ekki þörf. Það á enn eftir að sannfæra mig um leiðina sem lögð er til með þessu frumvarpi, með stofnun Happdrættisstofu. Mér finnst algerlega ótækt að hægt sé að fá upplýsingar um og að haldið sé utan um það hvernig maður notar kreditkortin sín. Það kemur engum við hvernig ég nota peningana mína. Það á ekki að vera hægt að rekja það til eins eða neins. Þó það sé ekki rekjanlegt til mín beint þá veit maður aldrei hvenær á að opna fyrir þá flóðgátt, eins og t.d. þegar statistík er tekin saman um hve margir spila fjárhættuspil á netinu. Það kemur engum við hver spilar fjárhættuspil á netinu. Þó það valdi fólki skaða þá finnst mér mjög mikilvægt að meðalhófs sé gætt og þarna finnst mér vera farið út fyrir meðalhófið.

Mér finnst líka mjög mikilvægt að ef við ætlum að framfylgja þessu þá þarf að banna dulkóðun á netinu. Er það eitthvað sem ráðherrann vill standa fyrir? Ég hreinlega trúi því ekki.