141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér aðeins í þessa umræðu um Evrópusambandið. Hv. þm. Magnús Orri Schram spurði áðan hvers vegna menn vildu ekki ræða innihaldið. Það er akkúrat það sem við höfum viljað fá að ræða í þingsal, innihald samningsafstöðunnar. Við höfum ekki mátt það, við megum ekki ræða þetta hér.

Utanríkismálanefnd er bundin trúnaði þegar kemur að því að móta samningsafstöðu. Af hverju megum við ekki ræða hana hér, af hverju megum við ekki ræða hana fyrir opnum tjöldum? Það er það sem er að, við fáum ekki að ræða það sem við viljum. Þannig er það bara, því miður.

Samfylkingin þarf hins vegar að svara þjóðinni, sem hún beinir máli sínu til eða talar um þegar henni þykir það við hæfi, hvers vegna Samfylkingin hafi sett það sem skilyrði í stjórnarmyndunarviðræðum að ekki mætti spyrja þjóðina hvort hefja ætti viðræður eða ekki. Það kom fram í gær hjá hæstv. innanríkisráðherra að Samfylkingin hefði neitað því að farið yrði af stað þegar búið væri að spyrja þjóðina hvort þjóðin vildi fara í þessar viðræður. Hvers vegna var það? Af hverju vill Samfylkingin ekki tala við þjóðina um það?

Svo er talað um að þjóðin eigi að fá að segja sitt álit þegar samningur liggur fyrir. Jú, það eru allir sammála um það að ef næst einhvers konar samkomulag — það verður að sjálfsögðu enginn samningur því að þetta gengur ekki út á það, ég vona að menn fari að átta sig á því. Þegar ljóst verður að meiri hlutinn telur að nú sé rétt að ganga í Evrópusambandið verður þjóðin að sjálfsögðu spurð. Það vilja allir. En það hefur komið fram, bæði óformlega og formlega á fundum með Evrópusambandinu, þingmönnum Evrópusambandsins, fyrrverandi forseta Evrópuþingsins og fleirum, að það er ekki um neinar viðræður að ræða. Það er Evrópusambandið eitt sem er í boði, ekkert annað. Það kemur fram hjá Evrópusambandinu sjálfu að það sé misskilningur að tala um samningaviðræður. Það er ekki rétt að tala um viðræður, að það sé verið að semja um einstaka hluti, heldur er verið að laga Ísland að Evrópusambandinu eins og það er. Menn verða að fara að horfast í augu við það.

Það sem mér finnst vanta skýringar á hér, og vonandi kemur það þá síðar því að þessi liður er víst búinn, frú forseti, er hvers vegna Samfylkingin neitaði þjóðinni um að segja álit sitt á því (Forseti hringir.) þegar Vinstri grænir virtust vilja það í upphafi þessa hryllilega ferils.