141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

úthlutun aflamarks í ýsu á þessu fiskveiðiári.

[15:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir það að þessi umræða sé komin á dagskrá þó að ég hafi beðið eftir henni í rúma þrjá mánuði. Þegar ég óskaði eftir þessari umræðu var hugmyndin sú að ræða það sem var fyrirséð og auðvitað blasir við okkur í dag, staðreyndirnar við þau vandræði sem fylgja því hversu lág úthlutun er í ýsu.

Það er gríðarlega mikilvægt að bregðast við þeirri grafalvarlegu stöðu sem er komin upp vegna þess að veiðin á miðunum er ekki í samræmi við excel-skjal hjá Hafrannsóknastofnun. Síðan er enn eina ferðina, það er ekkert nýtt, ekki tekið mark á sjómönnum eða þeim sem vinna í sjávarútvegi, nei, auðvitað er excel-skjalið rétt. Það er alltaf stuðst við excel-skjalið, þ.e. Hafrannsóknastofnun segir að ýsustofninn sé eins og hún heldur fram en síðan er veiðin á miðunum allt öðruvísi. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við tökum það til alvarlegrar umhugsunar og gerum það ekki að pólitísku deiluefni að við verðum að breyta fyrirkomulagi á því hvernig við mælum stærðir fiskstofna.

Í þessari umræðu langar mig að fara örstutt yfir af hverju ég segi þetta. Tölulegar staðreyndir sýna fram á mikilvægi þess. Ég tek fjögurra ára tímabil sem snýr að ýsustofninum. Á þessum fjórum árum var að meðaltali veitt 32% fram yfir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, öll árin, fjögur ár í röð. Við sem þekkjum og höfum lesið ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vitum að þar kemur alltaf fram að úthlutunin sé það sem þeir meta að hámarki, annars muni veiðarnar hafa alvarlegar afleiðingar fyrir stofninn. Hvað skyldi hafa gerst eftir að búið var að ofveiða stofninn um þessi 32% að meðaltali fjögur ár í röð, ekki eitt ár heldur fjögur? Var þá ekki komið að skuldadögum, þurftu menn ekki að skera niður ýsustofninn í samræmi við það? Nei. Þá nefnilega lagði Hafrannsóknastofnun til að ýsukvótinn yrði aukinn um 83% milli ára — eftir þessa ofveiði. Þess vegna hlýtur að vera skýlaus krafa að við gerum breytingar á þessu fyrirkomulagi sem ég tel algjörlega úrelt.

Síðan er annað umhugsunarefni fyrir okkur hér. Ég ítreka að við skulum ekki fara með þessa deilu niður í pólitískar skotgrafir. Á fiskveiðiárinu 2007/2008 var lagt til að veidd yrðu 105 þús. tonn af ýsu og 130 þús. tonn af þorski. Hvernig eru þessar úthlutuðu aflaheimildir ef maður færir þær milli ýsu og þorsks svo ég haldi mig bara við þessar tvær tegundir? Það er þá um það bil 80% úthlutun í ýsukvótanum miðað við þorskkvótann.

Á næsta fiskveiðiári telur Hafrannsóknastofnun mikilvægt að fara enn neðar með ýsukvótann og að við veiðum á sama tíma meira af þorski. Þá ætlum við að veiða í þeim hlutföllum innan við 30 þús. tonn af ýsu en 230–250 þús. tonn af þorski. Þá er hlutfallið af ýsunni á móti þorskinum farið niður í 10% en var fyrir fimm árum 80%.

Svona eru ekki aðstæðurnar á miðunum og þessu verður að breyta. Við sjáum hversu mikilvægt þetta er. Það kemur fram í upplegginu í umræðunni hversu mikilvægt er að bregðast við þeim spurningum sem ég vænti að hæstv. ráðherra muni svara hér á eftir, spurningum sem eru settar fram samhliða.

Tökum bara einn skipaflota, smábátana. Þeir eru nú þegar, þegar fjórir mánuðir eru liðnir af fiskveiðiárinu, búnir að veiða 16% umfram heildarúthlutun í aflamarki. Þar sem ég þekki til á Snæfellsnesi, þar sem vertíðin er að hefjast fyrir alvöru hjá dragnótabátunum, er áhyggjuefni manna ekki hvort vel fiskist. Nei, áhyggjuefnið er hvort það geti verið að þeir sleppi við að fá eins mikla ýsu og er fram undan.

Því miður eru þær áhyggjur manna alltaf að aukast því að ýsuveiðin blossar upp alls staðar. Þetta er grafalvarleg staða.

Auðvitað höfum við fengið ábendingar um þetta frá mörgum sveitarfélögum og sveitarstjórnum. Mig langar að vitna sérstaklega í það sem við fengum frá Kaldraneshreppi, þ.e. Drangsnesi, þar sem skorað er á okkur að bregðast við þessu. 15. nóvember er allt að stoppast í þessu byggðarlagi. Við getum tekið Hólmavík til viðbótar og marga aðra staði þaðan sem við fáum ábendingar um það hversu mikilvægt er að bregðast við stöðunni. Þetta var staðfest með bréfi sem við fengum þrem vikum seinna, þar var sagt að það væri búið að stoppa bátana sem gætu þá ekki róið, búið að segja upp fólkinu og atvinnulífið og byggðarlagið í upplausn.

Þess vegna kannski ítreka ég þær spurningar sem eru settar hér fram með beiðni til hæstv. ráðherra um sérstaka umræðu:

Telur hæstv. ráðherra ástæðu til að endurskoða úthlutun?

Hyggst ráðherrann láta skoða hvaða áhrif úthlutunin hefur á einstaka útgerðarflokka? (Forseti hringir.)

Telur ráðherrann ástæðu til þess að skoða hvaða áhrif úthlutunin hefur á einstök byggðarlög?

Síðast en ekki síst: Telur hæstv. ráðherra að úthlutunin sé í samræmi við veiðina á miðunum?