141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

samstarf innan ríkisstjórnarinnar.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með sama mál og rætt var áðan. Hæstv. forsætisráðherra sagði að þróunin hefði orðið sú sama þótt ekkert samkomulag hefði verið gert. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna var þá þetta samkomulag gert ef það skiptir engu máli?

Hæstv. ráðherra upplýsti um það í fjölmiðlum að ef af þessu hefði orðið, þ.e. ef komið hefði fram tillaga og samkomulagið hefði ekki náð fram að ganga hefðu orðið stjórnarslit, ef ég skildi hana rétt. Hvers vegna var ástæða til að hóta Vinstri grænum stjórnarslitum ef málið var í traustum farvegi?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hefur það áður komið upp að Vinstri grænum hafi verið hótað stjórnarslitum út af Evrópusambandsmálum? Er þetta í fyrsta sinn sem beitt er þeirri aðferð að hóta stjórnarflokknum stjórnarslitum eða hefur það gerst áður út af sama máli?

Mig langar líka að velta því upp við hæstv. forsætisráðherra: Hvernig sér hæstv. ráðherrann fyrir sér samstarf þessara tveggja flokka að afloknum kosningum? Ef Samfylkingin ætlar að halda því til streitu að fara inn í þetta Evrópubandalag en Vinstri grænir ætla áfram að reyna að telja fólki trú um að þeir séu á móti því, og segjum að svo sé, hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér samstarf þessara flokka í framhaldinu nema þá þeir framlengi einfaldlega þessa skrýtnu yfirlýsingu?

Í ljósi þess sem kom fram í umræðum í gær þegar hæstv. innanríkisráðherra upplýsti að Samfylkingin hefði hafnað því í stjórnarmyndunarviðræðum að spyrja þjóðina hvort hefja ætti viðræður eða ekki, langar mig að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að Samfylkingin hafnaði því að spyrja þjóðina hvort hefja ætti viðræður um aðild að Evrópusambandinu? Það sagði hæstv. innanríkisráðherra í umræðum í gær eða fyrradag.