141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:13]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Ég vek athygli hæstv. forseta á því að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fer með rangt mál úr ræðustóli þegar hann segir að ég hafi beitt hótunum til að þingviljinn komi ekki fram. Þetta sagði ég ekki. Ég var að svara spurningu sem til mín var beint um það hvað gerðist ef sú tillaga sem lá fyrir utanríkismálanefnd hefði komið inn í þingið. Ég svaraði því til að ef hún hefði verið samþykkt hefði það verið andstætt stjórnarsáttmálanum og þá hefði samstarfi milli flokkanna verið sjálfhætt. Þetta var það sem ég sagði en er svo túlkað eins og svo oft áður af þingmönnum, það sem ég segi í ræðustól, með kolröngum hætti, að ég hafi sagt hér að ég hafi beitt hótunum til að þingvilji kæmi ekki fram.

Ég vil koma þessu á framfæri við hæstv. forseta þar sem hv. þingmaður beinir röngum ummælum til forseta og biðja hann að líta á þau. Ég skora á hæstv. forseta að kíkja á það. Það er óþolandi hvernig snúið er út úr orðum í þessum ágæta ræðustól.