141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

velferðarstefna -- heilbrigðisáætlun til ársins 2020.

470. mál
[12:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um meting um hvort sá sem hér stendur kom að því eða ekki. Við erum sammála um þetta. Við erum sammála um 98% af því sem við erum að tala um.

Ég tek til dæmis hámarksgjaldtöku einstaklinganna á ári. Hæstv. ráðherra hefur stutt ríkisstjórn sem stoppaði þessa vinnu, það er kjarni málsins og hæstv. ráðherra kemst ekkert hjá því. Núverandi forseti þingsins stýrði þeirri vinnu ásamt hv. þm. Pétri Blöndal.

Það getur vel verið að menn vilji skipta út nefndarmönnum. Það er allt í fínu lagi með það en því miður hefur þessi ríkisstjórn unnið þvert á þessi markmið. Hið sama má segja um atvinnuþátttökuna. Við deilum ekkert um það, hvar sem menn standa í pólitík getur enginn haldið því fram að það hafi verið unnið af fullum krafti að því að auka atvinnuþáttttöku meðal almennings. Fleira mætti nefna.

Þegar hæstv. ráðherra segir að tíminn við heilsustefnuna hafi runnið út er það sannarlega rétt. Ef menn ætla að ná þeim markmiðum sem lagt er upp með og við erum sammála um en komast of seint að þeirri niðurstöðu að fylgja því eftir væri eðlilegt að menn gengju í það verk og kláruðu það áður en þeir bættu í.

Ég frábið mér þessar umvandanir hæstv. ráðherra þar sem ég hélt að við hæstv. ráðherra værum sammála um stóru málin í þessu. Það veldur mér vonbrigðum að (Forseti hringir.) hæstv. ríkisstjórn hefur ekki farið eftir þeirri stefnu og þeim tillögum sem hún leggur upp með hér.