141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og til að svara fyrstu spurningu hans og þeirri stærstu um hvort þetta hafi áhrif á núverandi stöðu fjölmiðla á markaði: Já, þetta getur haft áhrif á hana. Þarna er talað um að ekki eigi aðeins að sporna gegn þeim samruna sem getur orðið heldur líka að skoða stöðuna eins og hún er núna. Hins vegar var það mat nefndarinnar að mæla fremur með þessum matskenndu reglum. Það var niðurstaða nefndarinnar, í ljósi þess að Samkeppniseftirlitið væri í raun og veru lykilaðilinn, að það ætti að fara með lykilhlutverk í þessu, að betra væri að nýta þær heimildir sem má kalla af samkeppnisréttarlegum toga fremur en statísk viðmið, ekki síst vegna þess að fjölmiðlamarkaðurinn er mjög fljótandi ef svo má að orði komast. Það er erfitt að skilgreina ólíka markaði þar, eins og ég nefndi áðan, hreinlega út frá hinum hröðu tæknilegu breytingum sem við sjáum ekki fyrir hverjar eiga eftir að verða, markaðurinn tekur sífelldum breytingum og við eigum eftir að sjá hraðar breytingar. Þess vegna var niðurstaða nefndarinnar sú að með því að hafa statísk viðmið sem miðuðust við tiltekna markaði væri verið að setja reglur um markaðinn eins og hann er nú en þær mundu eiga erfitt líf í heimi þar sem mjög hröð tæknileg þróun væri fram undan. Það var kannski ein af lykilröksemdunum fyrir því að horfa frekar til þessara matskenndu reglna.

Hv. þingmaður nefndi samrunaeftirlitið. Ég ætla að fá að óska eftir því við hv. þingmann að hann fari aðeins nánar út í þá spurningu áður en ég svara honum að nýju.