141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:12]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hægt að vísa úrskurðum fjölmiðlanefndar til dómstóla. Það er sú leið sem hægt er að fara.

Mig langar að bæta við, af því að ég nefndi að það hefði verið gerð breyting á hatursáróðursákvæðinu án þess að segja hvaða breyting það væri, að hér er lagt til að orðið „skoðanir“ verði fellt út úr ákvæðinu. Það var hvað mest gagnrýnt í umræðunni í þingsal síðast þegar við ræddum þetta mál enda kemur það orð ekki fyrir í téðri tilskipun sem við byggjum ákvæðið á. Fólki þótti þetta vera aukin skilyrði. Hins vegar vísuðum við til tilmæla Evrópuráðsins þar sem var rætt um skoðanir. Það hefur þá verið fellt út og bætt við orðunum með „markvissum hætti“ til þess að ákvæðið snúist ekki um einstök tilvik heldur þegar fjölmiðlar miðla hatursáróðri á reglubundinn hátt. Við teljum að greinin um það ákvæði sé orðin talsvert skýrari en hún var í síðasta frumvarpi.