141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:18]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er akkúrat kjarni málsins. Þetta er eitt mikilsverðasta markmið frumvarpsins, þ.e. að ná utan um eignarhaldstakmarkanir á fjölmiðlum. Þess vegna veltir maður því fyrir sér hvort hægt sé að taka dæmi af aðstæðum sem gætu hleypt því af stað að fjölmiðlaréttarlegum sjónarmiðum væri svo hætt komið að það réttlætti inngrip Samkeppniseftirlitsins í eignarhaldi á fjölmiðlum, kæmi í veg fyrir samruna eða krefðist þess að eignarhald væri brotið upp og það selt o.s.frv.

Við erum á þessum örmarkaði með stórt og drottnandi ríkisútvarp sem er lítið takmarkað á auglýsingamarkaði í sjálfu sér og hefur gríðarleg áhrif á alla lýðræðislega og pólitíska umræðu í landinu, og svo höfum við eina, tvær aðrar sjónvarpsstöðvar og nokkrar útvarpsstöðvar við hliðina. Hvaða samþjöppun að mati hæstv. ráðherra gæti kallað fram þetta uppbrot, það yrði bara ein einkarekin við hliðina á ríkisrekna risanum, eða hvaða aðstæður gætu að mati ráðherra kallað fram uppbrot á eignarhaldi fjölmiðils?