141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2010.

505. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. fjárln. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta hefur margoft verið rætt hér í sölum þingsins og í þessum ræðustól. Það er auðvitað eðlileg niðurstaða, getum við sagt, að miðað við að hækka þurfi iðgjaldið um 4% til að standa undir lífeyrisskuldbindingum, sem eru um það bil 4 milljarðar á ári, séum við ekki að sýna réttan rekstur á ríkissjóði heldur séum við í raun og veru að fela 4 milljarða rekstrarkostnað ríkissjóðs, t.d. á árinu 2013. Á þetta var bent í umræðunni við fjárlagagerð 2013.

Þetta er eitt af þeim málum sem verður að breyta þegar greitt er í A-deildina. Hugsunin við stofnun A-deildarinnar var akkúrat að forðast það sem hafði gerst í B-deildinni, en því miður er stefnan sú sama og á því verður auðvitað að taka.

Ég vil þó segja eitt og það kemur skýrt fram í þessu áliti og við ræddum það á sínum tíma þegar vikmörkin voru hækkuð. Viðbrögð stjórnvalda á sínum tíma voru að hækka vikmörkin til þess að bregðast við stöðu sjóðsins. Ég og hv. þm. Pétur Blöndal erum algjörlega sammála um það og lögðum það til á þeim tíma að bætt yrði við greiðslu sjóðsins til þess að sýna raunrekstur og raunkostnað ríkisins, til þess að bregðast við þessu, í stað þess að fresta alltaf öllu til framtíðar og láta aðra leysa vandamálin.

Menn verða líka að gera sér grein fyrir því, og það hef ég oft sagt í þessum ræðustól, að fulltrúar fjármálaráðuneytisins eru með meiri hluta í stjórninni. Það er umhugsunarvert fyrir okkur hér að fulltrúar ráðuneytisins séu látnir fella tillögu frá aðilum launþega um að auka greiðsluna um 4%. Að mínu mati er mjög umhugsunarvert fyrir þingið að hafa málið í þessari umgjörð því að það stendur mjög skýrt í lögum sjóðsins að standi hann ekki undir lífeyrisskuldbindingum beri að hækka iðgjaldið.