141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

skráð trúfélög.

132. mál
[16:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get eins og hv. þm. Auður Lilja Erlingsdóttir líka fagnað þessari lagabreytingu. Mér finnst hún samt ekki ganga nógu langt en ég er á svipuðum slóðum og hún. Það er auðvitað gott að menn jafni stöðu fólks eftir lífsskoðun án þess að ganga á rétt þeirra sem njóta verndar laga í dag. Þetta er mannréttindamál af stærstu gráðu.

Það er hins vegar býsna furðulegt, eins og hv. þingmaður talaði um áðan, af hverju menn eru að skrá hvítvoðunga sjálfvirkt í trú- eða lífsskoðunarfélög þrátt fyrir að langflestir sem gefa umsögn geri athugasemd við það. Ég verð bara að segja eins og er að mér finnst sérkennilegt að skrá nýfætt barn í lífsskoðunarfélag.

Málið er töluvert alvarlegra en það vegna þess að ef foreldrar eru ekki í sambúð og tilheyra hvort sínu trúar- eða lífsskoðunarfélaginu er barnið skráð í félag þess foreldris sem hefur forræðið, ef ég hef skilið málið rétt, ég vona að ég sé ekki að fara með vitleysu. Mig langar að heyra hvað hv. þm. Skúli Helgason á við þegar hann talar um að gefa fólki ráðrúm, ég átta mig ekki alveg á þessu ráðrúmi sem fólk þarf.

Hitt sem mig langar að spyrja um er að samkvæmt 1. mgr. 8. gr. núgildandi laga um trúfélög geta 16 ára gömul börn skráð sig í og úr trúfélagi. Flest börn fermast hins vegar 13, 14 ára gömul. Hefði ekki verið eðlilegra að lækka þennan aldur niður í 13 ár eða þá að beita sér fyrir því að fermingaraldurinn hækki upp í 16 ár?