141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

viðbrögð ráðherra við ummælum forstjóra Útlendingastofnunar.

[13:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég hef sagt hér og einnig í fréttum að mér hvorki fannst né finnst enn að þessi ummæli hafi verið eðlileg. Forstjóri Útlendingastofnunar er að sjálfsögðu frjáls manneskja og nýtur málfrelsis á nákvæmlega sama hátt og ég, þingmenn og allur landslýður.

Auðvitað tökum við þátt í opinni umræðu um þessi mál sem önnur. En af því að við erum að tala um hælisleitendur vek ég athygli á því að við erum að tala um einstaklinga sem iðulega eru að flýja mannréttindabrot. Það er staðreynd og við þurfum að gæta orða okkar. Það er það sem ég hef hvatt til að við gerum. Það eru allir frjálsir að því að segja það sem þeim finnst og það á við um forstöðumenn ríkisstofnana sem aðra einstaklinga. Ég hef alla tíð staðið vörð um málfrelsið, einnig hjá þeim. Það gerði ég sem formaður BSRB í rúmlega 20 ár (Forseti hringir.) og ég geri það enn. (Gripið fram í.)