141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Mig langar til að spyrja hana hvort hún telji eðlilegt að bótakerfi eins og lífeyrissjóðirnir heyri undir fjármálaráðuneytið, hvort hún telji ekki eðlilegra að það sé þá frekar hjá velferðarráðherra sem fjallar um bætur og annað slíkt. Meginhlutverk lífeyrissjóðanna er jú að greiða bætur en ekki að ávaxta fé. Þeir ávaxta fé til þess að geta greitt bætur. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji þetta eðlilegt.

Svo er ég ánægður með það að flýta tryggingafræðilegri úttekt en það er spurning hvort hægt sé að skerpa á því enn frekar, það þarf að ræða í nefndinni hvort það geti unnist. En auðvitað ætti bæði bókhald og tryggingafræðileg úttekt að liggja fyrir á hverjum tíma fyrir sig þannig að þetta sé bara gert jafnóðum, sérstaklega að bókhaldið sé þannig. Það væri gaman að heyra í ráðherra hvort hún teldi ekki að ríkisbókhaldið ætti líka að vera búið í lok janúar þannig að við gætum klárað ríkisreikning í febrúar, mars.