141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:43]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að fjalla aðeins um hugmyndir mínar um hvernig verði að breyta lífeyrissjóðakerfinu hér á landi í ljósi þess að bókfært tap lífeyrissjóðanna er komið upp í 520 milljarða. Samkvæmt skýrslu nefndar sem gerði úttekt á lífeyrissjóðunum þá töpuðu þeir 480 milljörðum á hruninu og síðan kom frétt nýlega í fjölmiðlum um að tap lífeyrissjóðanna af stöðutöku með krónunni næmi um 40 milljörðum. Lífeyrissjóðirnir þurfa að mæta þessu tapi og þeir hafa þar af leiðandi verið mjög tregir til að fallast á kröfu skuldsettra heimila um að afnema verðtrygginguna og leiðrétta verðtryggðar skuldir sem hafa hækkað um 420 milljarða frá hruni. Vörnin sem verðtryggingin veitir sjóðunum gegn óvæntum verðbólguskotum, eins og átti sér stað hér eftir hrun, hefur reyndar ekki dugað til að tryggja þeim 3,5% raunávöxtun frá 2007. Til að mæta tapinu af hruninu og of lágri raunávöxtun, sem hefur ekki verið nema um 2,5% samkvæmt ársskýrslu Fjármálaeftirlitsins en þar er að finna ýmsar upplýsingar um fjármálamarkaðinn, hafa lífeyrissjóðirnir þurft að skerða réttindi frá hruni um 130 milljarða á hinum almenna vinnumarkaði. Enn vantar 120 milljarða í sjóðina til að þeir geti staðið við réttindaloforð sín.

Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna töpuðu líka á fjárfestingum sínum í hruninu. Tap þeirra er reyndar inni í þessum 520 milljörðum. Lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna eru auk þess að sligast undan réttindum sem margir sjóðfélagar fengu í kaupum fyrir mun lægri laun en greidd voru á hinum almenna vinnumarkaði. Þar af leiðandi er mikil tregða hjá lífeyrisþegum lífeyrissjóða opinberra starfsmanna að samþykkja lækkun lífeyris.

Að óbreyttu stefna lífeyrissjóðirnir okkar í þrot vegna þess að eignir sjóðanna munu ekki duga til að greiða lífeyri sem sjóðfélögunum hefur verið lofað, jafnvel þó að lífeyrissjóðirnir á hinum almenna vinnumarkaði hafi þegar lækkað lífeyrisgreiðslur í samræmi við hluta af tapinu.

Fjármálaeftirlitið hefur lagt til hækkun iðgjalda, frekari skerðingu réttinda og hækkun lífeyrisaldurs sem er reyndar sá hæsti í allri Evrópu. Fjármálaeftirlitið er því að þrýsta á að við hækkum iðgjöldin og að lífeyrissjóðirnir skerði enn frekar réttindi og að við á Alþingi hækkum lífeyrisaldurinn. Aðilar vinnumarkaðarins hafa nú þegar samþykkt að hækka iðgjöld úr 12% í 15,5% á hinum almenna vinnumarkaði og Fjármálaeftirlitið vill að iðgjaldið verði hækkað meira, eða upp í 20%, hjá opinberum starfsmönnum. Það verði þá 15,5% fyrir fólk á hinum almenna vinnumarkaði en fólk sem starfar hjá opinberum aðilum greiði 20% iðgjald. Í raun er verið að leggja til að við herðum kapphlaupið við að safna í lífeyrissjóði með því að greiða hærra iðgjald í lengri tíma og sættum okkur við lakari réttindi. Þessi tillaga Fjármálaeftirlitsins ætti að fá marga til að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að staldra við og íhuga hvort við séum á réttri braut.

Fjármálakreppan afhjúpaði veikleika lífeyrissjóðakerfisins, eða þess sem við köllum sjóðsmyndunarkerfi, en kerfið byggir á þeirri forsendu að ávöxtun á fjármálamarkaði sé alltaf meiri en hagvöxtur og að sjóðirnir geri ekki mistök í fjárfestingum. Þeir gera ekki mistök ef þeir hafa fullkomnar upplýsingar um alla fjárfestingarmöguleika en krosseignarhald margra fyrirtækja á Íslandi fyrir hrun varð meðal annars til þess að lífeyrissjóðirnir gátu ekki metið raunhæft fjárfestingarvalkosti sína. Því verður ekki breytt nema við krefjumst þess með lögum að öll fyrirtæki upplýsi um raunverulega eigendur. Markaðir á Íslandi og ekki bara á Íslandi heldur erlendis líka búa ekki yfir fullkomnum upplýsingum þannig að sjóðir eins og lífeyrissjóðir, sem eru langtímafjárfestar og ávaxta lífeyri fólks, munu alltaf gera mistök í fjárfestingum sínum og tapa á einhverjum þeirra.

Fjármálakreppan sem við búum við í dag hefur leitt til mikillar eignaverðslækkunar og margir álíta að sú eignaverðslækkun sé bara byrjunin á því sem við munum sjá þegar lífeyrissjóðirnir, sérstaklega okkar sem eru mun stærri en stærð hagkerfisins, þurfa að selja eignir til að fjármagna útgreiðslu á lífeyri því að þá muni eignaverð á Íslandi aftur lækka verulega og jafnvel hrynja þegar stórir árgangar fara af vinnumarkaði og hefja töku lífeyris. Ef eignaverð lækkar við sölu eigna lífeyrissjóðanna munu fjármagnstekjur skattgreiðenda líka lækka þannig að skattgreiðendur eru í raun og veru að taka á sig skell vegna þess að við erum með sjóðsmyndunarkerfi, ekki í gegnum hærri skatta eins og þegar við erum með gegnumstreymiskerfi heldur í gegnum lægri fjármagnstekjur. Við erum ekki að verja skattgreiðendur gegn öldrunarvandamálinu með því að byggja upp öflugt sjóðsmyndunarkerfi.

Þegar stórir árgangar fara á lífeyri og við búum við stórt gegnumstreymiskerfi þá þarf, eins og ég hef áður getið, að hækka skatta til að mæta fjölgun lífeyrisþega. Með öðrum orðum, öldrunarvandamálið verður ekki leyst með sjóðsmyndunarkerfi því að vandi þess er að fjármagnstekjur í hagkerfinu lækka almennt hjá mörgum skattgreiðendum en skattgreiðslurnar þurfa ekki endilega að hækka eins og gerist í gegnumstreymiskerfinu. Þetta er í raun og veru þversögn sem hefur ekki verið rædd mikið heldur hafa margir hagfræðingar búið til goðsögn um mikla yfirburði lífeyrissjóðakerfisins, eða sjóðsmyndunarkerfisins, samanborið við gegnumstreymiskerfið til að takast á við fjölgun lífeyrisþega. Sjóðsmyndunarkerfið hefur aftur á móti ekki mikla yfirburði þegar kemur að því að takast á við öldrunarvandamálið hvað varðar að verja vinnandi fólk gegn tekjutapi af völdum öldrunarvandamálsins.

Við vitum nú að lífeyrissjóðir geta rýrnað og tapast eins og við sáum í hruninu. Auk þess hefur legið ljóst fyrir að lífeyrissjóðakerfið tryggir hvorki jöfnuð né lífeyri sem dugar til framfærslu fyrir hvern og einn þar sem réttindi fara eftir launum viðkomandi yfir starfsævina. Ef viðkomandi hefur verið á lágum launum alla starfsævina, sem á í mörgum tilfellum við um konur, þá verður lífeyririnn lágur og dugar ekki endilega til framfærslu.

Uppbygging lífeyrissjóðakerfisins leggur jafnframt afar þungar byrðar á kynslóðirnar sem byggja upp lífeyrissjóðina. Þessar kynslóðir þurfa að greiða skatta til að fjármagna lífeyri eldri kynslóða, sem eiga ekki rétt á lífeyri, og safna fyrir eigin sparnaði. Viðvarandi halli á lífeyrissjóðakerfinu þýðir auk þess að vinnandi kynslóðir gefa eftir réttindi sín til að fjármagna lífeyri þeirra sem hafa hafið töku lífeyris. Það er einmitt að gerast núna. Það er ekki búið að leiðrétta upphæð lífeyris í dag í samræmi við tap lífeyrissjóðanna þannig að lífeyrissjóðir, bæði lífeyrissjóðakerfi opinberra starfsmanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði, taka í raun lífeyri sem vinnandi kynslóðir eru nú að safna fyrir sig og greiða út sem lífeyri til kynslóða sem hafa þegar hafið töku lífeyris.

Á Íslandi hafa málin þróast þannig að við höfum búið við óvenjuhraða uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins, eða sjóðsmyndunarkerfisins, ekki síst í gegnum verðtrygginguna, en verðtryggingin er einmitt að sliga skuldsett heimili í dag, sem eru þá þeir vinnandi einstaklingar sem sjá á eftir lífeyri sínum, sem átti að vera fyrir þá þegar þeir færu á lífeyri, til kynslóða sem eru hættar á vinnumarkaði og hafa hafið töku lífeyris.

Eftir bankahrun hafa lífeyrissjóðirnir verið háðir viðvarandi hallarekstri hins opinbera til að geta fjárfest viðbótarlífeyri sem greiddur er inn á hverju ári til sjóðanna. Talið er að það séu um 120 milljarðar sem lífeyrissjóðirnir fá í auknar iðgjaldagreiðslur á hverju ári. Frá hruni og fram til dagsins í dag hafa sjóðirnir ekki haft mörg fjárfestingartækifæri til að setja þessa 120 milljarða í. Þeir hafa því fyrst og fremst verið að kaupa ríkisskuldabréf. Nú eru um 50% af eignum sjóðanna í verðbréfum sem ríki og sveitarfélög hafa gefið út. Það má því segja að helmingur af eignum lífeyrissjóðanna sé í einni körfu, þ.e. hjá hinu opinbera.

Krafa lífeyrissjóðanna um að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum til að fjárfesta erlendis mun aukast og hefur aukist í takt við minnkandi halla ríkissjóðs. Fram til þessa hafa lífeyrissjóðir gleypt megnið af sparnaði landsmanna. Það má eiginlega segja að ástæða þess að sparnaður landsmanna í formi innlána er lítill sem enginn séu þessar iðgjaldagreiðslur í lífeyrissjóðina, þ.e. í stað þess að spara með því að leggja fyrir þá greiðir vinnandi fólk hér á landi í lífeyrissjóði. Atvinnulífið hefur því haft mjög takmarkaðan aðgang að lánsfé til að fjármagna áhættusamar fjárfestingar eins og nýsköpunarstarfsemi og uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra. Í raun og veru er atvinnulífið háð lífeyrissjóðum, langtímafjárfestum, um fjármagn til fjárfestinga en langtímafjárfestar eins og lífeyrissjóðir hafa ekki áhuga á nýsköpunarstarfsemi sem er oft afar áhættusöm. Þeir eiga ekki að fjárfesta í áhættusamri fjárfestingu heldur. Það má segja að lífeyrissjóðirnir hafi búið til skort á fjármagni til áhættufjárfestingar í landinu. Það skýrir meðal annars hvers vegna svona mikill þrýstingur er á lífeyrissjóðina að fara í áhættusamar fjárfestingar.

Það kerfi sem við ættum að hafa og hefur reynst best er blandað kerfi, kerfi þar sem er meira jafnvægi milli sjóðsmyndunarkerfis og gegnumstreymiskerfis.