141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

rannsókn samgönguslysa.

131. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og Einari K. Guðfinnssyni þann áhuga sem þeir sýna á málinu og þær athugasemdir sem þeir færa fram. Mest af því kom nú reyndar fram, eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi, í umræðunni fyrir helgi og kannski er ástæðulaust að ég fari aftur yfir það. Hins vegar kom fram í máli mínu og tel ég rétt að ítreka það nú að málið verður aftur tekið inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd á milli umræðna. Þá verður farið aftur yfir þau atriði sem hv. þingmenn komu hér inn á, og er sjálfsagt að verða við því, þar með talið vangaveltur þeirra um hvort og með hvaða hætti sparnaður verði við breytinguna eða hvort það hafi hreinlega kostnaðaraukningu í för með sér, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á.

Varðandi faglega þáttinn er það annað atriði sem er vissulega þess virði að skoða. Í máli eins og þessu er alltaf svolítil spurning um með hvaða hætti á að tækla það þegar unnið er að einhverjum þáttum eins og þessum, sameiningu tiltekinna þátta rannsókna. Það er svolítið erfitt að meta það fyrir fram hvort fyrirkomulagið sem stungið er upp á verði örugglega betra eða örugglega öðruvísi eða leiði örugglega til faglegra framfara. Það getur maður í rauninni aldrei sagt um fyrir fram. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á í máli sínu nefnir nefndin það sérstaklega að ástæða sé til þess að fylgjast grannt með því. Það er alveg rétt.

Ég vildi óska þess að það væri sú hugsun og það verklag sem oft væri viðhaft þegar farið er í sameiningar eins og þessar. Ég vil ekki gera lítið úr þessari sameiningu eða þessari breytingu hér, síður en svo, og tek heils hugar undir það sem hv. þingmenn hafa komið inn á, þ.e. mikilvægi þess að við stöndum almennilega að rannsóknum á slysum.

En ef við berum það til að mynda saman við þær vangaveltur sem komu fram þegar stærstu sjúkrastofnanir á höfuðborgarsvæðinu voru sameinaðar á sínum tíma þá fór fram sáralítil fagleg umræða um hvort sameiningin mundi skila nokkrum árangri þegar upp væri staðið. Það fór fram sáralítil umræða um hvort hún mundi skila nokkurri rekstrarlegri hagræðingu. Menn sigldu í rauninni bara af stað þrátt fyrir athugasemdir alls konar fagaðila og faghópa o.s.frv.

Ég tek undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að auðvitað er það áhyggjuefni ef þeir sem leggja fram athugasemdir eða umsagnir við þingmál telja nánast fyrir fram að ekki muni verða tekið mark á þeim. Það er náttúrlega eitthvað sem Alþingi þarf að horfa til, hvort það sé almenn tilfinning úti í samfélaginu eða hvort það eigi bara við í einhverjum tilteknum málum. Það eru atriði sem snerta til að mynda sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu o.s.frv.

Ég vil í lok umræðunnar segja að það er sjálfsagt mál að taka snúning á málinu í hv. þingnefnd á milli umræðna. Ég mun sjá til þess að það verði gert og fá um það upplýsingar eins og hv. þingmenn kalla eftir, hvort með frumvarpinu sé ekki örugglega verið að stíga framfaraskref, því að það er jú það sem við viljum sannarlega.