141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun.

80. mál
[17:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega ástæða til að fagna því að þetta mál er komið svo langt á veg sem raun ber vitni. Það á sér talsvert langan aðdraganda og í raun er til fyrirmyndar hvernig málið hefur verið unnið alveg frá upphafi. Grunnurinn var lagður með því að hv. 1. flutningsmaður málsins beitti sér fyrir því að leggja fram beiðni um skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun. Hún var fyrst lögð fram á 139. löggjafarþingi. Beiðnin var síðan endurflutt á næsta þingi á eftir, því 140. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra lagði svo fram skýrslu um stöðu barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun á sama löggjafarþingi. Í þeirri skýrslu kom fram að víða væri pottur brotinn í þessum málaflokki sem augljóslega kallaði á það að málinu yrði fylgt eftir. Með þessu móti má segja að efnislega hafi verið vel byggt undir það að leggja fram þingsályktunartillögu, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hafði forustu um og gerði síðan á 140. löggjafarþingi. Málið er nú statt í síðari umræðu á 141. löggjafarþingi og eru allar líkur á að það verði samþykkt á fundi á morgun í þinginu.

Fram kom í skýrslunni, þar sem farið var mjög vel yfir stöðu barna með tal- og málþroskaröskun, að víða er pottur brotinn í þjónustu við börn. Samkvæmt þeirri tillögu sem við erum að fjalla um er gert ráð fyrir því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að endurskoða málefni barna- og ungmenna með tal- og málþroskaröskun með markvissri aðgerðaáætlun í samræmi við niðurstöðu þeirrar skýrslu sem ég vísaði til.

Ef við skoðum þessi mál má ýmislegt augljóslega til betri vegar fara. Allir þeir umsagnaraðilar og fjölmargir gestir sem komu fyrir hv. velferðarnefnd lýstu mjög jákvæðu viðhorfi til tillögunnar. Ég skal játa að fyrir mér var mjög lærdómsríkt að hlusta á það sem þarna kom fram. Þeir voru sammála um að nauðsynlegt væri að taka málefni þessara barna til heildstæðrar endurskoðunar og skapa samfellu í kerfinu. Það er þetta með samfelluna sem skiptir mjög miklu máli. Það kom einmitt fram í máli þeirra sem komu fyrir nefndina að foreldrar þessara barna hefðu átt í miklum erfiðleikum með að rata um kerfið. Þegar tal- eða málþroskaröskun kemur upp hjá börnum er foreldrum því nokkur vandi á höndum.

Fyrsta spurningin er í raun: Hvar fer þessi greining fram? Eins og ég skildi málið fer greiningin annars vegar fram hjá heimilislæknum sem fylgjast með börnum, taka þau í reglulega skoðun við tveggja ára aldur, að ég hygg, og hins vegar er fylgst með því hvernig málþroska barna vindur fram á leikskólum sem langflest börn sækja. Ef ástæða er til er brugðist við og gripið inn í.

Það virtist vera mat fulltrúa þeirra foreldra sem sóttu nefndina heim að þarna væri í sjálfu sér býsna vel að málum staðið. Reynt væri að fylgja málum eftir, en vandinn væri hins vegar í því fólginn þegar börn skiptu um skólastig, færu úr leikskóla í grunnskóla, úr grunnskóla í framhaldsskóla, því að þá rofnaði samfellan sem er til staðar innan einstakra skólastiga. Að mati eins talsmanns sem kom fyrir nefndina þurfa foreldrar innan grunnskólans að vera mjög meðvitaðir um það að fylgja því eftir að börn þeirra sem eru með röskun á tal- eða málþroska fái þá þjónustu sem þó er til staðar. Þetta fannst mér mjög athyglisvert og nokkuð sem við þurfum auðvitað að bregðast við. Þetta regluverk virðist sem sagt vera býsna flókið og óljós ábyrgðarskipting milli aðila, þ.e. skólans, heilbrigðisþjónustunnar og annarrar þjónustu sem stendur utan og ofan við þetta.

Það er skortur á samfellu í kerfinu sem ég tel að við þurfum með einhverjum hætti að takast á við. Þess vegna var það niðurstaða okkar í nefndinni að bæta við þessa tillögugrein nýjum málslið svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Endurskoðunin skal unnin í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis, velferðarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga.“

Það er augljóst af hverju þetta er: Leikskólar og grunnskólar heyra undir sveitarfélögin, mennta- og menningarmálaráðuneytið er hið faglega ráðuneyti yfir þessum málaflokki og á vettvangi velferðarráðuneytisins er margs konar þjónusta sem lýtur einmitt að hagsmunum þessara barna og ungmenna.

Það er auðvitað fagnaðarefni að þekkingin er að aukast. Fyrsti árgangur talmeinafræðinga frá Háskóla Íslands hefur útskrifast eins og hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, framsögumaður málsins, vakti athygli á. Það má búast við því að við munum sjá útskriftir á mörgum talmeinafræðingum á komandi árum. Þá skiptir líka mjög miklu máli að menn hafi allt landið undir. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á hérna áðan, að þessi þjónusta hefur mikla tilhneigingu til þess að safnast saman á stóru þéttbýlisstöðunum, einkanlega á höfuðborgarsvæðinu og eftir atvikum líka á Akureyri, eins og þegar hefur gerst að einhverju leyti. Þess vegna skiptir það miklu máli fyrir börn og ungmenni og foreldra þeirra að þessi þjónusta sé til staðar víða um landið. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að þjónustunni þarf að einhverju leyti að sinna með því að aðkomandi sérfræðingar meðhöndli þennan vanda, alla vega á tilteknum svæðum, og þá verðum við að hyggja að því.

Það sem skiptir miklu máli, og ég vonast til að geti orðið afraksturinn af þessari tillögu, er að ábyrgð allra þeirra sem koma að málunum verði skýrari. Við áttum okkur á því hvaða þjónustu við sem samfélag, hvort sem það er á sveitarstjórnarstigi eða stigi ríkisvaldsins, við viljum reyna að tryggja. Síðan og ekki síst það sem kom skýrt fram í máli framsögumanns og ég hef undirstrikað, að samfellan í þjónustunni sé tryggð þannig að þeir sem sækja þjónustuna, þurfa að sækja hana, geti treyst því þegar þjónustan er hafin að hún rofni ekki einhvern tímann þegar síst skyldi og að fólki sé algjörlega ljóst hvert því beri að leita þegar upp koma tilvik um tal- og málþroskaröskun sem foreldrar og börn þurfa að takast á við. Ég hygg að eitt af því sem við þurfum líka að skoða alveg sérstaklega sé að gera foreldrum grein fyrir því strax í upphafi ef slík tilvik koma fram hvert þau eigi að leita o.s.frv.

Eins og ég nefndi hér áðan þá virðist eins og menn hafi ekki áhyggjur af því að greiningunni sé ábótavant, það er ekki svo, heldur fremur eftirfylgninni, að meðhöndlun á þessum vanda eigi sér stað á öllum skólastigum til þess að auðvelda nemendum og ungu fólki að takast á við vandann sem þessi börn og ungmenni standa frammi fyrir því að hann getur verið gríðarlegur. Málþroskahömlun af einhverju tagi getur gert að verkum að efnilegir nemendur eiga erfitt með að fara í gegnum skólakerfið. Málhelti af einhverju tagi gerir það að verkum að nemendur hika við að tjá sig. Hluti af skólastarfi er einmitt tjáningin. Það svo mikilvægt fyrir okkur að takast á við þetta til að glata ekki tækifærum þeirra barna og ungmenna sem búa við þennan vanda, þessa helti.

Ég er sammála því sem segir hér í nefndaráliti, enda skrifa ég undir það, að með samhentri vinnu eigi að vera hægt að gera mikla bragarbót á þessum málaflokki. Ég held að það að tillaga eins og þessi verði samþykkt geti gert að verkum að menn setjist niður og fari heildstætt yfir þetta mál og átti sig á því hvar beri að bera niður, hverju menn geti bætt úr, hvaða úrræði séu til staðar og hvaða úrræði þurfi mögulega að skapa. Við hljótum líka að binda vonir við að aukin menntun og þar með þekking á þessum málaflokki sé í sjónmáli. Hún er auðvitað til staðar í miklum mæli í dag en með útskrift talmeinafræðinga, sem vonandi hasla sér völl sem víðast á landinu, á að vera hægt að taka enn betur á þessu máli.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði aðeins að fylgja úr hlaði hugrenningum mínum út af þessu máli. Ég fagna því að málið er komið þetta áleiðis. Ég tel ástæðu til að þakka flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar undir forustu hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur fyrir þeirra framtak í þessum efnum og undirstrika að ég held að það sé til fyrirmyndar hvernig að málinu var staðið með því að kalla fram upplýsingar um stöðu þess og af því tilefni, á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir, var þessi þingsályktunartillaga flutt um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun. Sömuleiðis er ástæða til að fagna því að um þessi mál hefur tekist góð samstaða. Málið hefur líka verið unnið mjög vel undir forustu hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur í velferðarnefnd. Þetta er því mjög faglega og vel unnið mál sem hefur varpað skýru ljósi á viðfangsefnið sem þessari þingsályktunartillögu er ætlað að ná utan um.