141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

þróun launakjara kvenna hjá hinu opinbera.

[11:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Lokaorð hv. þingmanns eru einmitt það sem ég vil byrja á. Það er það sem jafnlaunaátakið gengur út á, við erum að fara að setjast yfir og endurmeta störf þessara kvennastétta, þ.e. þar sem konur eru meira en tveir þriðju af félagsmönnum innan stéttarfélaganna. Það erum við að fara að gera.

Hv. þingmaður kallar eftir tímasetningum. Þær koma vel fram í þessu jafnlaunaátaki og fyrirætlunum stjórnvalda og því sem við ætlum að ráðast í núna. Við erum að tala um tímabilið þangað til kjarasamningar renna út, það verður með haustinu.

Frú forseti. Það er ætlun okkar að vera búin að endurmeta kvennastörf hjá ríkinu og fara í gegnum það ferli áður en næstu kjaraviðræður hefjast. Það eru tímasetningarnar. Við ætlum okkur að fara skarpt í þetta, við ætlum að vinna þetta hratt og vera komin með aðgerðaáætlun um það hvernig við getum útrýmt þessum mun á allra næstu árum. Þetta skiptir máli og tímasetningin er aldeilis komin fram.

Við erum búin að setja fjármagn í þetta og það kom inn með samþykkt Alþingis á fjárlögum fyrir árið 2013. Það er kominn mannskapur í þá vinnu, sem kallað hefur verið hér eftir af hv. þm. Margréti Tryggvadóttur, að menn fari beinlínis í bókhaldið og vinni þá handavinnu sem þarf að gera. Það erum við líka að fara að gera.

Þetta er stærðarinnar verkefni og stór áskorun sem menn hafa ekki náð að klára á síðustu áratugum. Þetta er meinsemd í okkar samfélagi sem verður að uppræta og það er ætlun þessarar ríkisstjórnar að laga þetta mál. Þess vegna er þetta jafnlaunaátak jafnskýrt og (Gripið fram í.) raun ber vitni, frú forseti, og við munum sjá árangur af því fyrr en síðar.