141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

bókhald.

93. mál
[11:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Næstu tvö mál láta kannski ekki mikið yfir sér, þegar menn tala um bókhald og ársreikninga, en eru auðvitað stór og mikil mál. Það hefur verið ágætisumræða um þetta í nefndinni og ég hef ekki orðið var við pólitískan ágreining þar. Ég tel hins vegar að það séu nokkur mál sem við þurfum að fara betur yfir ef við ætlum að ganga þannig frá málinu að full sátt geti verið um það og það verði jafn vel unnið og við viljum. Þá er ég sérstaklega að vísa í hvernig við upplýsum um eigendur hlutafélaga og ýmislegt annað sem er þarna inni.

Virðulegi forseti. Við förum fram á að þessi mál fari bæði aftur til nefndar og að við förum betur yfir þau. Við munum sömuleiðis fara fram á að sú tillaga sem hv. þm. Sigríður Á. Andersen flutti hér vegna málsins verði kölluð aftur til 3. umr. Ef það er ekki möguleiki munum við greiða atkvæði með henni. Þetta mál er þess eðlis að við eigum að geta náð góðri sátt um það og þess vegna förum við vinsamlega fram á að við förum betur yfir það en sitjum hjá við atkvæðagreiðsluna núna.