141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:18]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sérstaklega að fram sé komið frumvarp að breytingum við lög um kosningar til sveitarstjórna þar sem verið er að opna fyrir persónukjör.

Eins og hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, fór yfir áðan er hér farið fram með tillögur að norskri fyrirmynd. Sá vinnuhópur fulltrúa úr ráðuneytinu, ásamt fulltrúa frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, sem hefur verið að fara yfir þetta mál hefur að mínu mati tekið mjög skynsamlegar ákvarðanir um að horfa til fyrirmyndar sem fellur mjög vel að því kerfi sem við höfum í kosningalöggjöf okkar til sveitarstjórna og þeirrar stöðu sem er í samfélagi okkar sambærileg við hefðir og kosningareglur í Noregi. Af þeim ástæðum er hægt að fara fram með þessar breytingar án þess að gera stórkostlegar uppstokkanir á kosningakerfinu að öðru leyti en því að verið er að mæta sjónarmiðum íbúa og landsmanna sem hafa ítrekað komið fram með skýrum hætti.

Kjósendur vilja fá tækifæri til að hafa aukin lýðræðisleg áhrif í kosningum með því að geta valið í persónukjöri. Það kom skýrt fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór fram þann 20. október sl. þar sem meðal annars var spurt sérstaklega út í þennan þátt, þ.e. um persónukjör til Alþingis. Ég hefði gjarnan viljað sjá fleiri þingmenn hér í salnum til að ræða þetta mál vegna þess að í mínum huga snýr þetta ekkert síður að persónukjöri og þeirri umræðu sem við erum með undir varðandi nýja stjórnarskrá, varðandi þá þætti sem lúta að kosningalöggjöf og kosningum til þingsins. Hér er farið fram með útfærslur gagnvart sveitarstjórnum. Maður heyrir stundum þá umræðu í röðum sveitarstjórnarmanna að verið sé að nota sveitarstjórnirnar sem einhvers konar tilraunavettvang fyrir breytingar í kosningalöggjöf hvað þetta snertir. Ég tel ekkert neikvætt við það. Ég tel að það sé af hinu góða. Sveitarstjórnir hafa verið í forustu fyrir því að vilja fara fram með ýmsar stjórnsýslubreytingar í þágu aukins réttar borgaranna. Sveitarstjórnir eiga að vera stoltar af því framtaki sem þær hafa sýnt í þeim efnum og hér er enn á ný verið að stíga frekari framfaraskref í þá átt.

Við ræddum í fyrradag tillögur sem hæstv. innanríkisráðherra kynnti um rafrænar kjörskrár og rafrænar íbúakosningar. Þar er sérstaklega horft til sveitarfélaganna í tilraunaverkefni hvað það snertir. Ég tel að horfa eigi á þessi mál í samhengi og menn eigi að þora að stíga enn stærri skref en lagt er upp með, þ.e. að hægt sé að tengja saman rafrænu kosningarnar og þetta persónukjör, sem gerir þá kostnaðaraukann sem ráðherrann nefndi sérstaklega, upp á 30–40 millj. kr., að engu, dregur þvert á móti verulega úr öllum kostnaði samfélagsins og sveitarfélaganna við kosningar. Það liggur ljóst fyrir að mun ódýrara er að standa fyrir rafrænum kosningum en hefðbundnum kosningum með útlögðum gjöldum vegna talningar og því sem tilheyrir. Við höfum reynslu af því, í þeim íbúakosningum sem fram hafa farið í hinum ýmsu sveitarfélögum, að það hefur gengið vel fyrir sig og kostnaður hefur verið í algjöru lágmarki miðað við það sem annars fylgir hefðbundnum kosningum.

Af því að hér var vikið að stjórnarskránni, m.a. í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals, og þeim áhrifum sem það frumvarp sem hér liggur fyrir hefur í þeim efnum, er rétt að fram komi að í yfirferð stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins hefur sú áhersla verið uppi að taka undir meginákvæði og upplegg í tillögum stjórnlagaráðs, meðal annars varðandi persónukjör, en fara ekki í djúpar útfærslur í stjórnarskránni sjálfri á því hvernig sú tilhögun eigi að vera, heldur að horfa til þess að í stjórnarskrá komi fram að heimild sé til þess að útfæra persónukjör og horfa eigi til þeirra þátta, en það verði hins vegar fært inn í almenna kosningalöggjöf til Alþingis hvernig það nákvæmlega verður gert. Það er þá Alþingis að ákvarða það ásamt öðrum þáttum sem lúta að kosningafyrirkomulaginu.

Tillagan sem hér er lagt upp með er byggð á skýru módeli og vísað er til hinnar norsku leiðar. Hún er líka ákveðinn leiðarvísir í því hvernig menn gætu náð saman um fyrstu skref í þessum efnum. Ég segi fyrstu skref vegna þess að farið er varfærnislega fram með þetta verkefni. Það er samt stórfelld breyting frá því sem verið hefur. Hér er verið að opna fyrir það að kjósendur geti með jákvæðum hætti, eins og hæstv. innanríkisráðherra nefndi réttilega áðan, haft áhrif á röðun á framboðslista með því að merkja, eins og hver fyrir sig kýs, við ákveðinn fjölda, einn eða tvo eða þess vegna allan þann lista sem viðkomandi aðili kýs. Jafnframt er opnað fyrir það, með ákveðnum takmörkunum þó, að hægt sé að kjósa á milli lista, þ.e. að merkja við ákveðna frambjóðendur á öðrum framboðslistum. Fjöldi þeirra merkinga er hins vegar takmarkaður eftir því hversu marga fulltrúa verið er að kjósa. Ef ég man rétt er miðað við það í þessum tillögum að í meðalstórri sveitarstjórn hér, þar sem kjósa þarf níu til ellefu fulltrúa, sé heimild til að kjósa tvo fulltrúa af öðrum listum en þeim lista sem viðkomandi aðili kýs sérstaklega.

Þetta er skynsamleg nálgun og hægt væri að ná breiðri samstöðu um þessa útfærslu enda hefur góð reynsla verið af þessu og samstaða um það hjá frændum okkar í Noregi. Það er þá einnig í hendi framboðanna sjálfra að ákveða hvort raðað verður á lista eða ekki. Það er í sjálfu sér ágætt að framboðin hafi það val, ég er hins vegar sannfærður um að kjósendur munu hafa mikið um það að segja hvort framboð til lengri framtíðar vilji raða listunum sjálf eða hafa þá óraðaða. Ég er sannfærður um að krafan verður mjög þung í þá veru að almennir kjósendur vilji hafa þennan rétt hjá þeim flokkum sem þeir styðja hver um sig, að hafa tækifæri til að raða á þeim listum. Flokkarnir hafa þá svigrúm, eins og kemur fram í frumvarpinu, og vakin var hér athygli á, til að setja ákveðið vægi á ákveðna einstaklinga, forustumenn eða aðra þá aðila á framboðslistanum sem þeir vilja að njóti ákveðinnar stöðu í framboðinu og hafi allt að 25% aukið vægi í kosningunni þegar talið verður upp úr persónuatkvæðunum.

Ég ítreka enn og aftur að ég tel að það sé bæði mikilvægt og gott að fá þetta mál til umræðu. Hæstv. ráðherra vék að því að málið væri unnið af óformlegum vinnuhópi ráðuneytismanna og Sambands ísl. sveitarfélaga og að Samband ísl. sveitarfélaga væri ekki bundið af þessu þannig lagað, að málið ætti eftir að fara í breiðari umræðu innan sveitarstjórna. Ég tel mjög mikilvægt að fá þá umræðu upp sem allra fyrst og víðtæka yfirferð og umfjöllun um þau efni í sveitarstjórnargeiranum. Ég tel mikilvægt að niðurstaða liggi fyrir í þessu máli sem allra fyrst. Ég geri mér grein fyrir því að stutt er eftir af þessu þingi en eigi síðar en í upphafi næsta þings á komandi hausti þyrfti Alþingi að geta afgreitt þetta mál frá sér til þess að tækifæri og tími gefist til undirbúnings í aðdraganda að sveitarstjórnarkosningum sem verða hér að vori 2014. Ég tel mjög brýnt að búið verði að kynna þessar útfærslur vel fyrir þjóðinni og í sveitarstjórnunum og athugasemdir og ábendingar liggi fyrir um það sem hugsanlega megi betur fara. Ég tel þó að þetta sé orðið mjög skýrt og klárt enda er ekki verið að fara fram með eitthvert verkefni sem ekki hefur verið reynt og prófað annars staðar, við þekkjum þetta frá Noregi. En umræðan þarf að eiga sér stað og fá þarf alla til að setja sig inn í þetta verkefni, ekki bara hina kjörnu fulltrúa og þá sem eru í ábyrgð í sveitarfélögunum í dag og í forustu þar, heldur ekkert síður almenning, að hann geri sér grein fyrir því hvernig þessi útfærsla er hugsuð.

Ég tel að þetta sé, eins og ég nefndi áðan, ekki síður áhugavert og gott innlegg inn í þá umræðu sem lýtur að stjórnarskipunarlögum sem við erum að fjalla um hér á þinginu og að menn muni hugsanlega vilja móta og þróa kosningalög til alþingiskosninga í einhverjum sambærilegum dúr og hér er lagt upp með. Ég hvet því til þess að þetta mál fái sem hraðasta afgreiðslu og umfjöllun, eins og kostur er hér í þinginu. Það væri mjög áhugavert ef okkur tækist að ná saman um að afgreiða málið fyrir þinglok, þó að ég telji ákveðna vankanta á því, en að málið fái umfjöllun og yfirferð eins og kostur er á þeim skamma tíma sem er til stefnu. Það skiptir þó mestu að frumvarpið er komið fram. Hér eru heilsteyptar, skýrar og áhugaverðar tillögur sem ég hef fulla trú á að hægt verði að ná breiðri samstöðu um innan Alþingis og ekki síður í sveitarstjórnargeiranum.