141. löggjafarþing — 70. fundur,  24. jan. 2013.

kosningar til sveitarstjórna.

537. mál
[12:32]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og heyra mátti á máli mínu áðan er ég mjög mikill áhugamaður um persónukjör og hef verið það lengi. Ég get upplýst hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um það að persónulega er ég opinn fyrir mjög stórum skrefum varðandi persónukjör. Ég væri sjálfur tilbúinn að fara allra lengstu leiðir í því að hafa þetta eins opið og vítt og nokkur kostur er.

Ég er hins vegar raunsær að því leyti, vegna þess að ég hef tekið þessa umræðu margsinnis á sveitarstjórnarstiginu og eins við þingmenn, að það skipti meira máli að ná saman um þann samnefnara sem hægt er að fara af stað með málið og koma því fram. Við höfum í raun og veru beðið allt of lengi eftir því að eitthvað gerðist í þessum málum. Ég tel að tækifæri sé til þess að sameinast um útfærslur í þá veru sem hér er verið að leggja upp með. Við vitum að það eru skiptar skoðanir, ekkert endilega á milli flokka heldur eru ekkert síður skiptar skoðanir um það hvernig eigi að útfæra svona mál innan flokkanna.

Norðmenn hafa fundið aðferð sem er að mörgu leyti mjög heppileg og mundi að mínu mati passa mjög vel til að ná breiðri samstöðu hér heima, ekki síst vegna þess að aðstæður okkar eru ekkert ólíkar aðstæðum Norðmanna; við lifum í samfélagi þar sem er mikið dreifbýli og flokkaskipan er ekkert ólík.

Svigrúmið er fyrst og fremst það að kjósandi hefur heimild til að raða á þann lista sem hann kýst en einnig eru opnaðir gluggar fyrir aðkomu að öðrum listum. Það er opið fyrir að flokkarnir geti sett ákveðið vægi á þá einstaklinga sem eru í framboði á þeirra vegum og menn vilja að hafi ákveðið vægi. Ég tel að þetta sé fyrsta skrefið til að fara fram með sem verður vonandi þróað enn frekar í framtíðinni.