141. löggjafarþing — 73. fundur,  28. jan. 2013.

virðisaukaskattur.

542. mál
[16:54]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ráðherra fyrir hennar innlegg hér en langar að spyrja: Hvert er mat hennar á þeim breytingum sem hún er að leiða hér fram og hvaða áhrif hafa þessar breytingar á stöðu gagnaveranna hér á landi?

Við höfum staðið í þeirri baráttu hér á vettvangi þingsins að gefa íslenskum gagnaverum sambærilega stöðu og þau gagnaver hafa sem starfa á þeirra helsta samkeppnismarkaði, þ.e. innan Evrópusambandsins. Að því marki stefndum við að ná með breytingum á skattalögum sem hér voru leidd fram á þingi fyrir rúmu einu ári síðan. Nú kemur ráðherra með ákveðnar breytingar í þessum efnum. Mér finnst skipta mestu máli og mér þætti vænt um ef ráðherrann gæti gefið skýr fyrirheit um það hver staða gagnaveraiðnaðarins er út frá þeim breytingum sem ráðherra leggur hér til. Ég legg á það áherslu að þetta er mikill og vaxandi iðnaður sem við eigum að geta stutt vel við, bæði hvað snertir ytri aðbúnað fyrirtækjanna og ekki síst í gegnum skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Því er mikilvægt að við áttum okkur fullkomlega á því þegar við hefjum þessa umræðu og þessa umfjöllun hér á þinginu hver staða gagnaveraiðnaðarins verður að þessum breytingum innleiddum.