141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í greinargerð frá fjárlagaskrifstofu efnahags- og fjármálaráðuneytisins, um heildarmat á áhrifum. Þar er sagt að verði frumvarpið lögfest muni 91 millj. kr. kostnaður verða um 73 millj. kr. í framtíðinni. Síðan kemur mjög skýrt fram nokkuð sem ég man ekki eftir að hafa séð áður, þ.e. að í raun og veru sé settur fyrirvari á að kostnaðarmeta frumvarpið miðað við hvernig reglugerðirnar eru útfærðar.

Í þessu frumvarpi eru gríðarlega miklar reglugerðarheimildir til ráðherra. Frumvarpið er um 133 greinar og mjög margar þeirra enda á því að ráðherra setur nánari reglugerð um framkvæmd viðkomandi lagagreina. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að ég man ekki eftir að hafa séð það áður að þess sé getið í umsögn um kostnaðinn hjá fjármálaráðuneytinu hvernig reglurnar verði útfærðar, (Forseti hringir.) hvort hann geti tekið undir þær áhyggjur mínar að hér sé verið að framselja of mikið vald frá löggjafanum til framkvæmdarvaldsins.