141. löggjafarþing — 74. fundur,  29. jan. 2013.

útlendingar.

541. mál
[14:47]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að fagna sérstaklega frumvarpi til laga um útlendinga sem hæstv. innanríkisráðherra kynnti hér. Þetta er afar yfirgripsmikið frumvarp og felur í sér heildarendurskoðun á lögum um útlendinga og hefur að geyma fjölmargar réttarbætur fyrir þann hóp. Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps sem hæstv. innanríkisráðherra setti á fót til að fjalla um málefni útlendinga utan EFTA og EES og er ástæða til að taka undir orð fyrri ræðumanna í þinginu í þessari umræðu um að maður saknar þess vissulega að ekki hafi tekist að stíga það skref að sameina í einni löggjöf lög um útlendinga og lög um atvinnuréttindi þeirra. Sömuleiðis má vel velta því upp að við erum hér jafnframt með lög um ríkisborgararétt sem hafa mikla þýðingu í þessu samhengi og er full ástæða til að fara vel í gegnum samræmið á milli þessara lagabálka í nánustu framtíð.

Það er afar brýnt fyrir samfélagið að við tryggjum í hvívetna mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga. Það er að sjálfsögðu fjölskrúðugur hópur sem um ræðir í þessu frumvarpi en afar mikilvægt að við vöndum okkur í hverju skrefi. Það væri allt of langt mál að fara í gegnum þau atriði sem ég tel til bóta en í dæmaskyni má nefna afar mikilvægt ákvæði um kærunefnd útlendingamála sem er núna sett í þann farveg að í framtíðinni verði um sjálfstæða stjórnsýslunefnd að ræða. Tímabærar breytingar eru gerðar á flokkum dvalarleyfa, kveðið skýrara á um rétt útlendinga til að sameinast ættingjum og nánustu aðstandendum hér á landi og lögfest ákvæði um talsmann umsækjenda um alþjóðlega vernd á báðum stjórnsýslustigum.

Hæstv. ráðherra ræddi um málsmeðferðartímann. Hann er sannarlega mikið áhyggjuefni. Í þessu frumvarpi er ákvæði um að málsmeðferð varðandi umsóknir um hæli, það sem hér er lagt til að verði í framtíðinni kallað alþjóðleg vernd sem ég held að sé góð breyting á hugtakanotkun, taki ekki lengri tíma en sex mánuði. Það er rétt að hafa í huga að þessi tími hefur verið margfalt lengri undanfarin missiri, farið upp í tvö til þrjú ár, og er mikilvægt að við förum vel yfir það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd hversu raunhæft viðmiðið er. Það er afar mikilvægt að við tryggjum að málsmeðferðartíminn verði styttri í framtíðinni en jafnframt að við reisum ekki væntingar í nýjum lögum um málsmeðferðartíma sem ekki er hægt að uppfylla í reynd.

Sömuleiðis þarf að skoða þarna samhengið við ákvæði um dvalarleyfi vegna mannúðarsjónarmiða sem veitt verði að vissum skilyrðum uppfylltum. Ég tel afar brýnt að slíkt ákvæði sé í lögunum en jafnframt þarf að meta hvort sú viðmiðun sem þar er nefnd um 18 mánuði sé raunhæf.

Ég vildi nefna tvö atriði til viðbótar. Í fyrsta lagi er ákvæði í frumvarpinu um flýtimeðferð fyrir atvinnurekendur sem vekur ákveðnar spurningar. Ég tel þurfa að fara vel í gegnum það í nefndinni hvort ekki þurfi víðari tilvísun, að ákvæði um flýtimeðferð í tilteknum tilvikum geti einnig tekið til annarra aðstæðna en þeirra þegar um sérstök atvinnuréttindi er að ræða. Til dæmis kunna að vera uppi sérstæðar aðstæður, fjölskylduaðstæður eða hagsmunir barna undir, sem réttlæta flýtimeðferð. Það er mikilvægt að við skoðum það í nefndinni út frá jafnræðissjónarmiðum.

Að lokum er þarna afar mikilvægt ákvæði um móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og eftir atvikum útlendinga í ólögmætri dvöl. Þetta er afar gott mál og brýnt ef rétt er að málum staðið varðandi framkvæmdina, en ég verð að játa að framsetningin í frumvarpinu, og kannski sérstaklega greinargerðinni, um að opnað sé fyrir að þarna megi sinna einstaklingum með mjög ólíkar þarfir, vekur upp spurningar um hvort ekki þurfi að kveða skýrar á um útfærsluna en gert er í frumvarpinu. Það má nefna það að umsækjendur um alþjóðlega vernd, einstaklingar sem hafa orðið fórnarlömb mansals og eftir atvikum útlendingar í ólögmætri dvöl, eru allt hópar sem eru nefndir í þessu ákvæði eða greinargerð með ákvæðinu og rétt að árétta að þarfir þessara einstaklinga og hópa eru mjög mismunandi. Fórnarlömb mansals í móttökumiðstöð sem einnig sinnir einstaklingum sem eru hættulegir umhverfi sínu, bæði sjálfum sér og öðrum, kunna að vera afar eldfim blanda sem menn þurfa að velta vel fyrir sér hvort eigi saman í einu úrræði eins og því sem hér er nefnt.

Ég hef reifað nokkur atriði sem ég tel að við í allsherjar- og menntamálanefnd þurfum að fara vel yfir. Stóra línan er að hér er á ferðinni afar brýnt og mikilvægt frumvarp og ég segi fyrir mitt leyti að ég tel að við eigum að freista þess í nefndinni að koma því vel í gegnum þingið. Þetta er þó afar viðamikið mál og mikilvægt að vanda sig í hverju skrefi.