141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Mikið er talað um, bæði í þessum sal og í fjölmiðlum, þann lærdóm sem við eigum að draga af Icesave-málinu, meðferð þess og hvernig staðið var að því á þinginu. Hv. þm. Magnús Orri Schram skrifar á heimasíðu sína í gær, með leyfi forseta:

„Vonandi lærum við af þessu ferli og virkjum niðurstöðuna í gær til að auka samráð og samvinnu við ákvarðanatöku. Þannig getur eitthvað gott komið út úr þessu herfilega máli.“

Þetta eru fín orð á blaði. Ég vil hvetja hv. þingmann til að beita sér fyrir því í þingflokki sínum og innan ríkisstjórnarsamstarfsins að á þeim verði tekið mark, vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni. En það virðist vera þannig að ekki sé tekið mark á hv. þingmanni vegna þess að 7. mál á dagskrá á eftir eru stjórnarskipunarlög, heildarlög. Hvernig er farið með það mál? Þar er sjálf stjórnarskráin undir, þar er sjálf stjórnarskrá ríkisins undir.

Við þekkjum þetta ferli. Þetta er búið að vera í útafkeyrslu á þessum vegi hverri af annarri. Við þekkjum hvernig stjórnlagaþingskosningin var dæmd ólögmæt og við þekkjum þann feril allan. Það er engin sátt um það mál sem við erum að fara að ræða hér á eftir og það er hrein fásinna að ætla að koma því hér í gegn fyrir þinglok.

Ég skora á hv. þingmenn stjórnarliðsins, og sérstaklega hv. þm. Magnús Orra Schram, að taka þessi orð og hrinda þeim í framkvæmd. Lærum af þessu ferli. Förum ekki af stað í það sem er algerlega vitað að mikill slagur, mikill ágreiningur, verður um. Það veit sá sem allt veit að sú sem hér stendur mun berjast fyrir því að þetta mál verði ekki samþykkt.