141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:16]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er nú margt varðandi vinnsluna á því máli sem nú á að fara að ræða hér sem vekur upp spurningar en þetta vekur enn fleiri spurningar. Er það í alvörunni svo að nú eigi að fara að tíðka það verklag að þegar þingmenn í nefndum biðja um að fá einhver atriði útskýrð nánar — þá væntanlega til þess að geta lagað það mál sem er til meðferðar í nefndinni, eða hugsanlega til þess að koma að einhverjum sjónarmiðum í sínu nefndaráliti — verði slík atriði ekki rædd fyrr en málin hafa verið afgreidd út úr nefnd? Hvaða nýja verklag er þetta?

Frú forseti. Þetta er ekki hægt. Ég tel best — miðað við þá útskýringu sem formaður nefndarinnar kom með hér áðan, að þetta væri gert til að skýra út ákveðið atriði, ákveðna efnisgrein í frumvarpinu — að þeirri umræðu sem á að fara af stað hér í dag verði einfaldlega frestað þannig að nefndarmönnum gefist færi á að fá þær skýringar sem óskað hefur verið eftir og þá jafnframt hugsanlega að breyta þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram og þeim nefndarálitum sem hér hafa verið í vinnslu.