141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

fundarboð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

[16:24]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er afar einkennilegt hvernig staðið er að þessum málum hér í þinginu og hvet ég forseta til þess að virða bæði þingsköp og þá vinnureglu sem hefur skapast hér, þ.e. að á meðan mál er til umræðu í þinginu og á dagskrá þingsins fari það ekki til nefndar nema í fullri sátt. Hér hefur réttilega verið bent á að boða eigi fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Fundur hefur verið boðaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fyrramálið, þar sem kosningakaflinn liggur undir.

Virðulegi forseti. Ég hef varað við því í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að þessi handarbakavinnubrögð verði viðhöfð í þessu máli. Okkur er talin trú um að við séum að fjalla á vandaðan hátt um stjórnarskrá Íslands. Við erum að tala um grunnlög landsins, virðulegi forseti, en vinnubrögð af þessu tagi eru ólíðandi og ekki tæk, ekki síst vegna þess að minni hlutar, í fleirtölu, (Forseti hringir.) stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafa nú þegar skilað af sér nefndaráliti sem byggir líklega ekki á þeim breytingum sem verða ræddar í nefndinni á morgun.

Þetta er ekki hægt, virðulegi forseti. Ég bið virðulegan forseta að grípa í taumana.