141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er í þessu efni ekki að tala um einstaka þætti eða þegar svona atvik koma upp, heldur einungis að þegar svona kemur upp þarf innan NATO að leita samþykkis fyrir tilteknum aðgerðum. Ég skil að það þurfi „consensus“ til að svo sé þannig að ef menn beita ekki neitunarvaldi sínu eru þeir þar með búnir að samþykkja. Ef fara þarf með það fyrir þjóðþingin, hvaða áhrif hefur það á ákvörðunartöku innan NATO og þá veru okkar þar?

Þingmaðurinn sagði — og ég veit auðvitað að í nefndinni hjá okkur hefur þetta ekki verið rætt. Ég veit ekki hvernig það hefur verið á vettvangi utanríkismálanefndar en ég hlýt að kalla eftir því að nákvæm skoðun fari fram á þessu. Ég vil einnig benda á að það er mjög nauðsynlegt að fá að vita hvernig þetta er hjá öðrum þjóðþingum sem eru aðilar að NATO. Þekkist þar að það sé bundið í stjórnarskrá að fara þurfi með slíkar ákvarðanir fyrir þjóðþingin?

Ég hvet (Forseti hringir.) formann nefndarinnar til að láta fara fram almennilega athugun (Forseti hringir.) á því á milli umræðna hvað það þýðir.