141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

breyting á stjórnarskrá vegna EES-samningsins.

[10:40]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tel ekki að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé á rangri leið, síður en svo. Ég held miklu frekar að hún taki mið af því að EES-samningurinn, eins og Evrópusambandið, hefur breyst verulega frá því að við gerðum hann fyrir hartnær 20 árum.

Ég er viss um að formaður Sjálfstæðisflokksins sem á sæti í utanríkismálanefnd hefur kynnt sér vinnuskjal ráðsins frá því í desember síðastliðnum því það hefur mörgum sinnum komið til umræðu, að ég hygg, innan utanríkismálanefndar og margoft á fundum EFTA-nefndarinnar. Þar er farið vel yfir það hvernig hlutirnir hafa breyst og þróast á síðastliðnum 20 árum. Það er algerlega rétt hjá hv. þingmanni að þar er talað um framsal valds vegna ákvarðana sem við sáum ekki fyrir þegar við stóðum í þessum sal og samþykktum aðild að EES. Í því tilviki sem hv. þingmaður ræðir um, þ.e. um fjármálaeftirlitskerfið, er ég þeirrar skoðunar að það sé mjög hallkvæmt fyrir Íslendinga að taka það upp. Ég tel reyndar að ef við hefðum haft slíkt kerfi fyrir 2008 hefði hrunið a.m.k. ekki orðið með þeim hætti sem síðar varð.

Ég nálgast þetta þannig: Er gott fyrir Ísland að hægt sé að þróa EES-samninginn með þessum hætti? Mitt svar er já og þess vegna er ég þeirrar skoðunar og af sjálfu leiðir að það sé þá líka hallkvæmt fyrir Ísland og efnahagslega velferð þess, stöðugleika og öryggi að framselja vald með þessum hætti. En þetta er val. Ef hv. þingmaður er annarrar skoðunar hygg ég að hann verði líka að velta fyrir sér hvernig hann vill láta EES-samninginn þróast og hvort hann vilji að Ísland taki upp umræðu um að við stígum út úr því samstarfi. Ég hygg að ef við heimilum ekki framsal með þessum hætti kunnum við að standa frammi fyrir ákvörðun af því tagi.