141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:36]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vísa til þess sem ég sagði í ræðu minni um lagamál og mannamál. Aðalatriðið er að stjórnarskráin sé gagnorð og skýr og skiljanleg þjóðinni, bæði í því hvernig á að skilja einstök ákvæði og einstakar málsgreinar og orð.

Ég sagði að málið væri unnið í hraðsuðu og ég færði rök að því. Sterkustu rökin í þeirri gagnrýni minni er að finna í aðkomu umboðsmanns Alþingis sem skilaði ítarlegri greinargerð á undraskömmum tíma, fékk eftir einhvern tíma að koma á fund nefndarinnar, einn fund, en úr þeim athugasemdum hefur ekki verið unnið.

Virtur fræðimaður sagði í mín eyru: Til hvers er ég að koma á fundi, til hvers er ég að skila umsögnum ef ekkert mark er tekið á þeim?