141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[14:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór í það að reyna að verja hlut meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og gerði það á margan hátt ágætlega. Ég get auðvitað gert ýmsar efnislegar athugasemdir við það sem hv. þingmaður sagði, ég hef ekki tíma til þess núna, mun vonandi komast í það í ræðum mínum við umræðuna hér síðar, en ég vil gera mjög alvarlegar athugasemdir við söguskýringu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður segir sem svo: Auðvitað eigum við að líta á sjónarmið sérfræðinga en þeir hafa ekki alltaf lög að mæla. Það er út af fyrir sig alveg rétt. En það sem einkennir hins vegar þessar breytingartillögur er að nánast í engu var tekið tillit til þeirra alvarlegu athugasemda sem komu frá sérfræðingum. Í annan stað vísaði hv. þingmaður til þess að þingmenn hefðu allir haft aðkomu að málinu. Það sem er hins vegar gagnrýnivert við það er að þetta var meira og minna til málamynda.

Við sjáum að nefndirnar fengu ekki tækifæri til að koma á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Við sjáum það birtast í mjög alvarlegum ábendingum sem koma fram til dæmis í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar. Ekki er tekið tillit til þeirra. Ekki er hægt að sjá það á lestri meirihlutaálits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að tekið hafi verið tillit til þeirra sjónarmiða sem þar komu fram.