141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá meiri hluta og minni hluta. Ég vil óska eftir því að formaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir, verði viðstödd umræðuna, hún hefur reyndar verið mjög þaulsetin. Þessi umræða hefur einmitt kallað eftir því að hér fari fram málefnaleg umræða um breytingarnar.

Fyrst af öllu langar mig til að fara í gegnum rökfræðina, og það væri ágætt ef hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gæti verið viðstaddur og hlustað á rökfræðina út frá því sem hann er að leggja til. Það þyrfti að kalla hann til salarins.

(Forseti (RR): Forseti getur ekki kallað einstaka þingmenn í sal, hv. þingmaður, það er þeirra val.)

Nei, en hann ræddi áðan ákveðna rökfræði um áframhaldandi ferli, en ég hef miklar efasemdir um þá rökfræði og ætla að koma inn á það núna.

Hann sagði að nú verði samþykkt eitt stykki stjórnarskrá. Þing verður rofið samkvæmt gildandi stjórnarskrá og boðað til almennra kosninga. Þá fara kjósendur og kjósa sér flokka og fólk til að stýra landinu næstu fjögur árin, til að taka á efnahagsmálum og öðru slíku. Svo kemur nýtt þing saman og miklar breytingar væntanlega í farvatninu. Því þingi, samkvæmt því sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði, er ætlað að leggja stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nú skulum við hugsa okkur að það gangi eftir, að nýtt þing hlýði þeim forustumönnum stjórnmálaflokkanna sem sitja núna í meiri hluta. Gefum okkur það að nýtt þing setji tillöguna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við skulum hugsa okkur í fyrsta lagi að hún verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem ekki er bindandi, frú forseti, vegna þess að þá þarf Alþingi að taka ákvörðun um hvort það samþykki þessa stjórnarskrá. Ef Alþingi hafnar henni, hið nýja, þá gerist ekki neitt, þá er öll þessi vinnan farin. En ef Alþingi samþykkir hana, hvað gerist þá? Þá verður hún að nýrri stjórnarskrá, sem þjóðin hefur aldrei greitt bindandi atkvæði um. Þetta er ekki gott ferli.

Ég hef lagt til miklu einfaldara ferli. Við breytum bara 79. gr. einni sér, og þá er hægt strax í upphafi næsta þings að setja nýja stjórnarskrá, eða þá stjórnarskrá sem þáverandi þingi dettur í hug að samþykkja, í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er þá bindandi, frú forseti. Ég hef lagt þetta til allan tímann. Það hefur ekkert verið hlustað á það. Við getum farið þá leið að þingið samþykki breytingu á 79. gr. og við lagt fram þessa hugmynd sem hefur verið rædd ítarlega í dag og í gær og verður rædd áfram í þarnæstu viku, og á eftir að gera heilmiklar breytingar á. Sú tillaga verði þá lögð fram á næsta þingi ef því þingi sýnist svo. Það getur að sjálfsögðu komið með enn eina breytingu á þessum tillögum. Ég ætla að vona að menn nýti þá gífurlegu vinnu sem lögð hefur verið í þetta, bæði af hendi stjórnlagaráðs, lögfræðinganefndarinnar, háskólasamfélagsins, alþingismanna, einstakra nefnda o.s.frv. Ég vona að menn nýti þá vinnu og flytji nýtt frumvarp með almennilegri greinargerð sem sagt er frá einni hlið en ekki að í henni séu margar mismunandi og misvísandi tilvísanir og skoðanir. Greinargerðin með því frumvarpi til stjórnarskrárbreytingar verði þá rökrétt og breytingarnar séu í sjálfu sér þannig að hægt sé að nota þær sem lögskýringargögn.

Sem stendur er ekki hægt að samþykkja þetta frumvarp vegna þess að lögskýringargögnin eru mótsagnakennd. Gögn frá stjórnlagaráði, lögfræðinganefnd, nefndinni sjálfri sem flutti þetta, eru mótsagnakennd, maður les í gegnum þau og þau eru virkilega mótsagnakennd. Og þó að menn vildu semja núna mjög gott nefndarálit, sem væri mjög skýrt og skorinort, þá mundi það aldrei taka til baka þau lögskýringargögn sem dómarar og lögmenn mundu nota úr hinu frá stjórnlagaráði og frá lögfræðinganefnd. Mér sýnist því að besta lausnin á þessu sé sú að samþykkja breytingar á 79. gr. og koma svo með nýtt frumvarp frá hinu nýja Alþingi sem nýti alla þá miklu vinnu sem hér hefur verið unnin.

Ég skrifaði umsögn 21. febrúar 2012 og hafði lagt í hana mikla vinnu. Mér segir svo hugur, frú forseti, að það hafi bara alls ekki verið lesið, álit upp á 30–40 síður. Mér segir svo hugur að það hafi hvergi verið lesið. Ég hef til dæmis ekki heyrt nokkurn mann taka á því sem ég benti á í nefndarálitinu að á 80 stöðum í þessu frumvarpinu til stjórnarskipunarlaga er vísað í það að Alþingi skuli setja lög. Ég ætla að nefna nokkur slík dæmi, bara nokkur til skýringar. Í frumvarpinu stendur:

„Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð.“ Af hverjum? Af hverju stendur einfaldlega ekki í stjórnarskránni: Einkalíf, heimili og fjölskylda okkar eru friðhelg? Af hverju stendur það ekki? Það liggur þá alveg á tæru, enginn er að tryggja það. Það stendur einfaldlega í stjórnarskránni og hún er grundvöllurinn undir bæði lagasetningu og dómsvald.

Í breytingartillögu við frumvarpið er sagt: „Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.“ Hvað gerist ef engin lög yrðu sett? Hvað gerist ef lögin eru ekki alveg í samræmi við það sem menn töldu að ætti að standa þarna? Hver á að dæma um það hvort þetta sé í samræmi við stjórnarskrá eða ekki þegar þetta stendur svona í stjórnarskránni? Ef Alþingi setur lög um frelsi fjölmiðla, hver á að dæma um það hvort það standist stjórnarskrá þegar það er Alþingi sjálft sem á að fylla upp í stjórnarskrána? Ég tel að það hefði verið miklu betra að segja: Fjölmiðlar skulu vera frjálsir, ritstjórnir þeirra sjálfstæðar og eignarhald gegnsætt. Þá er það alveg á tæru. Þá stendur það í stjórnarskránni.

Ekki er hlustað á þetta. Ég hef heldur ekki fengið mótbáru við því að það sé allt í lagi. Síðan stendur hér: „Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum.“ Af hverju stendur ekki: Starf fréttamanna skal verndað sem og heimildarmanna þeirra. Af hverju stendur það ekki? Þá er stjórnarskráin sem undirstaða búin að segja það og dómstólar geta strax dæmt. Þetta eru meðal fjölda annarra dæma. Til dæmis segir í 17. gr.: „Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.“ Aftur skal Alþingi vera virkt til að stjórnarskráin verði gild. Hún er ekki gild fyrr en Alþingi er búið að gera eitthvað. Af hverju stendur ekki: Vísindi, fræði og listir skulu vera frjáls. Af hverju stendur það ekki bara? Þá yrði það alveg á tæru.

„Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi.“ Af hverju stendur ekki: Við megum stofna félög? Ekki var hlustað á þetta. Það er ekki mikið mál að laga þessi 80 atriði. Stjórnarskráin yrði miklu skýrari þegar búið væri að orða hlutina með þeim hætti að ekki þyrfti að setja þá í lög.

Þá ætla ég að tala örlítið um dýravernd. Það er sérstakur kafli um dýravernd í stjórnarskránni. Mér finnst menn vera að þynna út stjórnarskrána. Það eru heilmikil og góð lög um dýravernd og eflaust má bæta þau. En að setja þau í stjórnarskrá sem á aðallega að fjalla um mannréttindi finnst mér þynna út mannréttindi og gera lítið úr þeim. Svo lendir maður náttúrlega í spurningum og vandamálum með hvað fellur undir dýravernd. Til dæmis geitungar, falla þeir undir dýravernd? Má ég drepa geitung? Eða nýtur hann sérstakra réttinda? Hvað með bakteríur? Hvar endar þetta? Ég hef talað við kjósendur um þetta og einn taldi að þetta ætti við um gæludýr en ekki húsdýr af því að þeim er slátrað. Gæludýrin eru reyndar líka tekin af lífi. En hvar ætla menn að afmarka þetta? Mér finnst þetta alger óþarfi. Við getum bara treyst á þau ágætu lög sem við höfum um dýravernd en það má kannski bæta þau.

Svo gerist dálítið merkilegt með forseta Alþingis. Hann er kosinn á þing sem löggjafi. Hann býður sig fram til að stunda löggjafarstarf. En ef hann skyldi nú lenda í því óláni að vera kosinn forseti Alþingis þá er hann ekki lengur löggjafi. Hann hefur ekki atkvæðisrétt á Alþingi. Hann hverfur úr hlutverki löggjafarsamkundunnar og fer í einhverja furðulega tóma stöðu. Hann er alla vega ekki löggjafarvald. Ég skil þetta ekki. Svo er hann auk þess staðgengill forseta Íslands. Hvers lags staða er þetta eiginlega? Og hvaða hlutverk hefur þessi maður eða kona sem hvorki er löggjafarvald né framkvæmdarvald og staðgengill forseta Íslands? Ég held að menn þyrftu nú að skoða þetta allítarlega. (ÁI: Það er búið að gera það, það er breytingartillaga ...) ja, það er breytingartillaga. Það er þá mín sök að hafa ekki lesið allar breytingartillögurnar, en ég þakka fyrir þessa ábendingu og mun kanna það strax og ég hef lokið ræðu minni.

Þá er það spurningin um persónukjör. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gerir algera breytingu á persónukjöri, þ.e. á 39. gr. Það sem menn eru að reyna að gera, og ég er í sjálfu sér mjög hlynntur, þ.e. að það sé meira um persónukjör á Íslandi. Reyndar er minn flokkur með nokkuð gott kerfi í persónukjöri, sem eru prófkjörin. Þau eru reyndar á mismunandi tímum út og suður og taka orku frá mönnum meðan Alþingi situr. En af reynslu minni af prófkjörum þá er ekki gott að færa þau inn á kjördaginn. Það er ekki gott að frambjóðendur segi á kjördag: Heyrðu, kjóstu nú Sjálfstæðisflokkinn en ekki kjósa þennan mann af því að hann er í samkeppni við mig, þ.e. sem er líka sjálfstæðismaður. Ekki kjósa þennan sjálfstæðismann. Það er náttúrlega ekki nógu gott.

Ég hef lagt fram tillögu og kem væntanlega með breytingartillögu til hv. nefndar af því að þetta er nú enn þá í vinnslu, að fjórum mánuðum fyrir kosningar séu allir flokkar — ég vil helst geta talað um hóp kjósenda eins og það er kallað, það er eins og menn vilji ekki tala um flokka, en flokkur í mínum huga er hópur kjósenda — ég mundi vilja að allir flokkar hafi tilkynnt framboð fjórum mánuðum fyrir kosningar. Þá færi í gang þriggja vikna prófkjörsvika eða prófkjörstími og á þeim tíma væri þinghlé til þess að sumir frambjóðendur noti ekki ræðustól Alþingis. Þá færu allir flokkar sameiginlega á kjörstað og menn gætu kosið bara persónu á listum. Ég gæti þess vegna kosið tvo lista, gefið jafnvel öðrum 60% og hinum 40% og síðan gæti ég krossað við fólk á þeim listum og það fengi þá mín atkvæði hlutfallslega eða eftir öðrum aðferðum, þannig að því verði lokið þrem mánuðum fyrir kosningar. Þá yrði sameiginlegt prófkjör allra flokka og sá persónulegi rígur sem myndast og leiðindi í prófkjörum, sem því miður fylgja alltaf, er þá kannski kominn sæmilegt í lag þegar kosningarnar sjálfar eiga sér stað þrem mánuðum seinna. Þetta er hugmynd mín við að leysa það vandamál með persónukjörið. Ég tel þá hugsun góða að koma á persónukjöri, enda hefði ég sennilega aldrei komist í pólitík nema í gegnum prófkjör.

Síðan ætla ég að ræða pínulítið um samskipti við þjóðina, mjög skemmtileg hugsun og ágæt, þ.e. 65. og 66. gr. og eiginlega 67. gr. líka. Það eru mjög athyglisverðar breytingar sem stjórnlagaráð kom með. Og nefndin líka, hún flutti þetta óbreytt að mig minnir og ekki eru gerðar breytingar við það í tillögum nefndarinnar. Það er reyndar dálítið undarlegt hvað nefndin gerir miklar breytingar við sitt eigin frumvarp, það er mjög athyglisvert. Ég held að hún hafi hlustað of mikið á lögfræðingana að eigin mati og svo hafi hún bakkað með það.

Í fyrsta lagi stendur í 65. gr.: „Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt.“ Jú, þetta gæti verið ágætishugsun, léttir ábyrgðinni af Alþingi, það gæti þá verið í dálítið glannalegri lagasetningu ef sá varnagli væri til staðar. Og þetta á að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Ég hugsa að það næðist nú yfirleitt en það er örugglega mikil vinna að ná 10% kjósenda til að greiða atkvæði. Spurningin væri reyndar um hvort menn gætu gert það rafrænt eða ekki. Ég mundi leggja til að við nefndum það í nefndaráliti að hægt væri að gera það rafrænt í gegnum til dæmis skattinn.

Lögin falla úr gildi ef kjósendur hafna þeim. Það á sem sagt að leggja fram kröfuna en síðan getur Alþingi ákveðið að fella lögin úr gildi áður. Svo stendur: „Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.“ Fyrst eru lögin samþykkt, síðan hafa menn kannski þrjá mánuði til að bera fram kröfu, segjum að það náist á einum mánuði, en þá getur Alþingi frestað um heilt ár að láta málið ganga fram. Segja má að lunginn af kjörtímabilinu fari í þetta út af einu lagafrumvarpi, fram og til baka, Alþingi getur lagt fram nýtt frumvarp eða ákveðið að fella lögin úr gildi o.s.frv. Þetta er það fyrsta og mér finnst þetta ekki sniðugt. Það fer eiginlega að myndast mikið vantraust á milli kjósenda og Alþingis.

Síðan segir: „Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram frumvarp til laga eða tillögu til þingsályktunar á Alþingi.“ Hér hefur verið nefnt hver ætti að mæla fyrir því og allt það, en ég er nærri viss um, frú forseti, að ef svo stór hluti kjósenda kæmi hingað á þing með fullbúið frumvarp, það væri undarlegt ef sá hópur fyndi engan þingmann sem vildi flytja það. Það væri undarlegt því að hver einasti þingmaður gæti flutt málið og ef ekki einn einasti þingmaður finnst til að flytja fullbúið frumvarp þá geri ég mér ekki miklar vonir um að það yrði samþykkt. Mér finnst því þetta vera tómt mengi vegna þess að ef svona stór hluti kjósenda kemur með fullbúið frumvarp til þings þá er nokkuð öruggt að hann fengi það flutt, sá hópur. Þetta ákvæði finnst mér vera tómt mengi, segi bara ekki neitt.

Síðan kemur enn athyglisverðara í 66. gr.: „Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps.“ Nú fara merkilegir og skemmtilegir hlutir í gang, sem sagt að Alþingi geri gagntillögu, eins og í kjarasamningum. „Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka“ — ég veit nú ekki hver ætti að gera það, hver á að draga það til baka? Hópurinn? Er hann með einhvern leiðtoga eða er þetta orðinn flokkur? Þá er það spurningin, hver fer fyrir hópnum? Hver gefur honum andlit? — „skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram.“ Þá verða kjósendur að fara að greiða á milli. Það er mjög athyglisvert. „Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi. Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því að málið hefur verið afhent Alþingi.“ Allt kjörtímabilið verður undirlagt af einhverjum slagmálum milli þjóðarinnar og Alþingis.

Ég vil að í staðinn fyrir öll þessi ákvæði komi eitt mjög einfalt: Ef 15%, eða 17% eða annað sem menn eru sammála um, af kjósendum óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingrof þá skuli hún fara fram innan tveggja mánaða. Þetta er miklu skynsamlegra. Ef traustið milli þjóðarinnar og þingsins er orðið svo veikt að menn ætla að fara í einhver slagsmál sem taka allt kjörtímabilið þá er miklu betra að boða til kosninga. En segjum að niðurstaðan yrði 15%, ég hef komið með breytingartillögu um það, ef 15% kjósenda óskar eftir því að fram fari bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um þingrof þá fari hún fram innan ekki mjög langs tíma, mín vegna eins eða tveggja mánaða. Ef það þingrof yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá yrði boðað til kosninga, það er svo einfalt, og þjóðin fengi að kjósa sér nýtt þing. Í staðinn fyrir allar þessar þrjár hugsanir um að kjósendur geti greitt atkvæði um lög frá Alþingi, um að þeir geti lagt fram frumvarp, það yrði miklu betra að sameina þetta allt í einni hugsun, þ.e. að þjóðin geti greitt atkvæði um þingrof.

Þetta var um samskipti Alþingis og þjóðarinnar. Ég verð að segja eins og er að mér finnst það á margan hátt skynsamlegt að kjósendur geti haft eitthvað um Alþingi að segja á öllu kjörtímabilinu en ekki eins og núna að þeir hafi í rauninni ekkert um það að segja, nema fara að berja potta og pönnur úti á Austurvelli og koma Alþingi þannig frá eins og gerðist hérna og hefur svo sem gerst áður. Það hefur líka gerst með allsherjarverkfalli o.s.frv. en mér finnst miklu snyrtilegra og minna ofbeldi fólgið í því að þjóðin geti greitt atkvæði um það eða safnað undirskriftum, friðsamlega, jafnvel í gegnum ríkisskattstjóraembættið. Og ef 17% eða 15%, eða einhver þröskuldur sem menn vilja hafa svo ekki alltaf sé verið að greiða atkvæði um þingrof, ef sæmilegur meiri hluti óskar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um þingrof þá fari hún fram fljótlega og verði bindandi.

Nú, þetta var um samskipti við þjóðina. Ég segi eins og er að ég er hlynntur hvoru tveggja, auknu persónukjöri og slíkum áhrifum, en mér finnst útfærslurnar ekki vera góðar eins og þær eru í tillögum stjórnlagaráðs og frá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd flutti frumvarp um eignarrétt og það er 13. gr. Það er mjög athyglisverð tillaga, hún er reyndar eiginlega alveg óbreytt frá stjórnarskránni nema búið er að taka út að hægt sé að hamla því að útlendingar eigi eignir á Íslandi. (Gripið fram í.) Ég var ekki kominn að breytingartillögu nefndarinnar við sínar eigin tillögur, því að hún setti nefnilega hvort tveggja inn aftur, bæði tillöguna um að eignarrétti fylgdu skyldur og því að hægt sé að hamla rétti útlendinga til kaupa á eignum. Um þetta ritaði ég ásamt hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni umsögn tiltölulega nýlega, en engu að síður, ég velti því upp, hvað þýðir: „eignarrétti fylgi skyldur svo og takmarkanir í samræmi við lög.“ Mér fannst það ekki koma nógu skýrt fram hvorki hjá stjórnlagaráði né hjá nefndinni þegar hún setti þetta aftur inn. Það kemur ekki skýrt fram hver breytingin er. Hver er breytingin á því að hafa ákvæði eins og það er í dag, án þessara skyldna, og svo kemur allt í einu að eignarrétti fylgi skyldur?

Sumir viðmælendur — við höfum heyrt það á Alþingi, ég held að hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, hafi sagt það nokkrum sinnum að eignarréttinum sé gert of hátt undir höfði í stjórnarskránni og í allri hugsun í vestrænum þjóðfélögum. Ef þeir sem svona tala hafa rétt fyrir sér þá er þetta einhvers konar skerðing á eignarrétti frá því sem er í dag. Ég sé svo sem alveg fyrir mér hvað gerist. Segjum að einhver maður eigi íbúð sem stendur auð og fjölda fólks vantar húsnæði. Það er kannski staða sem er einmitt uppi í dag, að margir eru að fjárfesta í íbúðum en þeir þora ekki að leigja þær af ótta við skemmdir og alls konar hluti. Það er því miður þannig að mjög lítill hluti leigjenda fer illa með orðspor flestra leigjenda. Segjum að sett verði í lög að maðurinn sem á auðu íbúðina skuli leigja hana. Er það hugsunin að það sé skylda að nýta eignir, nýta heiðalönd, nýta vötn, það skuli veiða í þeim eða eitthvað slíkt? Þetta les maður nefnilega saman við 2. mgr. 9. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta: „Mannréttindi tryggð með stjórnarskrá þessari má því aðeins skerða að það sé gert með lagaheimild í þágu almannahagsmuna“ — það er ekki sem á við hérna — „eða til verndar réttindum annarra“ — og þá ekki með tilliti til almannahagsmuna — „svo sem samræmist lýðræðishefðum.“ Allt í einu er komið eitthvert hugtak sem heitir lýðræðishefðir. Ég veit ekki hvað það er, en það er kannski aðeins takmörkuð greind mín og þekking sem kemur þar inn í. En það eru einhverjar lýðræðishefðir sem þarf að samræma og þá er hægt að skerða mannréttindi til verndar réttindum annarra. Segjum að einhver maður hafi réttindi til að búa í íbúð hér á Íslandi, hinu kalda, en hann sé húsnæðislaus. Annar maður á íbúð sem stendur auð. Og þá er spurningin: Er með samspili þessara tveggja greina stjórnarskrárinnar hægt að skylda með lögum þann sem á íbúðina sem stendur auð til að leigja hana hinum sem er húsnæðislaus, eða jafnvel láti hana endurgjaldslaust til afnota? Það er ekki einu sinni rætt um það. Mér finnst að þetta þurfi að vera á hreinu.

Svo kemur næsta spurning: Nú vill svo til að ég er með eitt herbergi sem ég nota ekki í íbúðinni minni. Getur þá verið að einhver muni segja að sá sem sé húsnæðislaus eigi rétt á því? Túristi sem kemur til Íslands að sumri og fær hvergi hótelherbergi, ber mér þá skylda til að skjóta yfir hann skjólshúsi, bláókunnugan mann? Hann skuli koma inn í íbúð mína og búa í því herbergi? Ekki veit ég hvort ég á að sjá um rúmföt og slíkt. Þetta er allt óljós. Fjöldi fólks á Íslandi treystir á eignarréttinn. Menn hafa lagt mikið á sig til að kaupa sér íbúð, menn hafa lagt mikið á sig, t.d. opinberir starfsmenn, til að byggja upp lífeyrisréttindi í B-deild LSR, sem er reyndar ekki einu sinni tryggð með ríkisábyrgð, en hún er tryggð með eignarréttinum. Hvað gerist ef eignarrétturinn er skertur, ef svona óljós réttindi eins og lífeyrisréttur sem er háður því að menn séu lifandi, maka, hjónabandsstöðu, börnum og öðru slíku, hvað gerist með slíkan rétt þegar búið er að veikja eignarréttinn? Getur verið að þetta sé atlaga að því kerfi öllu saman? Mér finnst þetta ekki koma fram í nefndaráliti nefndarinnar, þegar hún flytur þessa tillögu og setur hana inn. Hún segir reyndar að þetta sé í rauninni lítils háttar breyting. Því þá að setja hana inn ef þetta er lítils háttar breyting og ef þetta skiptir ekki máli?

Ég ætla einmitt að spyrja hv. formann nefndarinnar að þessu. Það getur vel verið að varaformaður nefndarinnar geti svarað því og mjög ánægjulegt væri ef hann gæti gert það.

Þetta eru áhyggjur mínar af eignarréttinum. Ég tek fram að ég er mikill eignarréttarsinni, svo það sé á tæru, og ég tel ekki að eignarrétturinn sé orðinn allt of sterkur. Hann er frekar veikur, mjög veikur, vegna þess að ráðist er að honum alls staðar frá með skattlagningu, skipulagslögum o.s.frv. Alltaf er verið að ganga lengra og lengra að eignarréttinum, sérstaklega með skattlagningu. Svo kemur verðbólgan náttúrlega sem rýrir eignir þeirra sem dettur í hug að eiga sparifé, sem eru svo vitlausir að vilja það, vil ég meina. Verðbólgan, rýrnandi króna étur upp spariféð, eignir þeirra sem eiga sparifé og innlánin. Og enginn virðist hafa neinar áhyggjur af því neins staðar.

Það sem ég ætla að ræða um næst er annað eignarréttarhugtak og það er hugtakið sameign þjóðar og auðlind, mjög athyglisvert og áhugavert efni. Ég bíð spenntur eftir áliti Feneyjanefndar á því fyrirbæri. Það er held ég einsdæmi í sögunni, um heimsbyggðina, að í stjórnarskrá standi eitthvað um auðlind og sameign þjóðar. Mér er alla vega ekki kunnugt um að það sé annars staðar og væri gott að heyra það frá varaformanni nefndarinnar ef svo væri.

Það sem við köllum auðlind í dag — aðallega er alltaf einblínt á þorskinn og heimildina til að veiða hann, var ekki auðlind langt fram eftir öldum. Þjóðin var bláfátæk og sjósóknin kostaði ótal mannslíf á hverju einasta ári. Mikill fjölda ungra karlmanna og eldri dóu við sjósókn. Þetta getur því varla verið auðlind, enda var þjóðin ekki rík. Hún var bláfátæk með þessa auðlind í næsta nágrenni. Svo þetta var ekki auðlind.

Sama er að segja um jökulárnar. Þær voru til bölvunar í hverri sveit, menn komust ekki yfir þær, það þurfti ferjumenn og jökulárnar tóku hest, mann og hund og voru ekki vel séðar í heimabyggð. Þetta var ekki auðlind. Hvenær varð þetta auðlind? Hvenær varð sjósóknin að auðlind og hvenær varð orkan að auðlind? Það var þegar mannauðurinn kom að og verkfræðivitið breytti til dæmis jökulánum í orku. Það er tiltölulega ný þróun, um 100 ára gömul, og raunveruleg auðlind var þetta ekki fyrr en fyrir um 40–50 árum. Við erum því ekki að tala um neitt voðalega gamalt fyrirbæri, auðlind. Og sjósóknin varð ekki auðlind fyrr en aðgangurinn að auðlindinni var takmarkaður 1984, það er nú ekki lengra síðan. Þangað til var hún ekki auðlind. Það var ekki sérstaklega hagkvæmt að gera út skip. Það var ekki fyrr en aðgangurinn var takmarkaður að hún varð auðlind. Og það gerist nefnilega það merkilega að allt sem er takmarkað myndar auðlind, hvort sem það eru skipulagslög, eitthvert land sem verður gífurlega verðmætt vegna þess að það er skipulagt þannig af sveitarfélögum, og menn geta orðið svakalega ríkir vegna skipulags eða vegna orkunnar sem aðeins ríkið á og menn komast ekki í. Menn geta ekki eignað sér orku núna. Það er ekki hægt, þannig að það er mjög takmarkaður aðgangur að orkuauðlindum. Eins er það með til dæmis rafsegulbylgjur — sem er ekki einu sinni talið upp sem auðlind í lagatextanum eða textanum sem á að fara í stjórnarskrá. Það er ekki einu sinni talið upp. Samt eru auðlindirnar taldar upp með tæmandi hætti. Til dæmis verslun með kolefnislosun og tún bænda, það er auðlind. Þar vex gras upp úr engu. Menn geta fengið gras úti á túni án þess að bera á það áburð. Það er reyndar ekkert sérstaklega gott en með því að bera áburð á það er hægt að ná heilmikilli auðlind úr grasi. Það er ekki talið upp heldur.

Ég held að skoða þurfi hugtakið auðlind miklu nánar og vita hvað það er. Segjum sem svo að menn komist að því hvað auðlind er, og það er væntanlega einhver atvinnustarfsemi sem gefur meiri arð en gengur og gerist, alla vega hefur það komið fram í umræðum um sjávarútveginn, þá kemur inn vandinn: Hvað er þjóð? Ef maður les þessar tillögur er talað um: „Við sem byggjum Ísland …“ byrjar þarna í fororði mjög fallega, við sem byggjum Ísland. En, frú forseti, það eru líka útlendingar. Þeir byggja Ísland. Fjöldi útlendinga hefur búið á Íslandi í 30–40 ár og þó að þeir séu með erlent ríkisfang þá eru þeir „við sem byggjum Ísland“. Spurningin er: Eru þeir þjóðin? Því er ekki svarað.

Hvað þurfa þeir að hafa búið lengi? Ferðamaður sem kemur hingað til landsins eða kom í morgun og byggir Ísland, er hann við sem byggjum Ísland, er hann þjóðin? Ég held varla. En það er ekki skýrt heldur.

Svo er ákvæðið um ríkisfang sem segir að allir sem eiga íslenska foreldra skulu fá íslenskt ríkisfang, sem er mikil verðbólga í ríkisfangi. Ég hef bent á það, gerði það 21. febrúar í fyrra, og vildi leggja til að þeir sem eru 18 ára þyrftu að velja sér ríkisfang ef þeir lentu í því að vera með tvö ríkisföng, sem er orðið mjög vaxandi og verður í framtíðinni mikið vandamál, sérstaklega þegar menn verða komnir með 10 eða 20 ríkisföng. Það er ekki einu sinni á hreinu hvað þjóð er, alls ekki. Ég vildi gjarnan að menn segðu mér hvað þjóð er, það eru svo margir sem vitna alltaf í þjóðina. Þjóðin vill þetta og þjóðin vill hitt, og ég hef stundum spurt þá hvert símanúmerið er hjá hinni ágætu þjóð.

Svo er ýmist talað um sameign eða eign þjóðar. Mér skilst að þjóðgarðurinn á Þingvöllum sé eign þjóðarinnar, ekki sameign. Það er eign. En hér er talað um sameign. Hver er munurinn á sameign og eign? Ekki rætt heldur, þetta er allt saman galopið.

Þetta skiptir náttúrlega verulegu máli af því að það virðist vera vilji hjá flestum að koma þessu inn í stjórnarskrá, en betra væri að búið væri að skilgreina betur hvað auðlind er. Ég held að það sé miklu víðtækara hugtak en gert er ráð fyrir í tæmandi upptalningu og við eigum eftir að sjá auðlindir sem verða miklu stærri en þær sem við sjáum í dag. Það er mín spá, sérstaklega á orkusviðinu eða rafsegulsviðinu þar sem rafsegultíðni og rafsegulbylgjur eru notaðar til að flytja upplýsingar. Þar verða verðmætin í framtíðinni, sem núna er verið að úthluta nánast fyrir ekki neitt.

Nú er tíma mínum að ljúka en ég ætla rétt aðeins að klára með því að ræða um Hæstarétt og Lögréttu. Þegar ég las tillögur stjórnlagaráðs um jólin í fyrra og í janúar fyrir ári síðan, ég las þær ítarlega, þá var ég eiginlega mjög hrifinn af hugmyndinni um Lögréttu. Lögrétta átti að vera fyrirbæri sem var kosið af Alþingi — ég var reyndar ekki hrifinn af því en ég var hrifinn af hugtakinu lögrétta — ég er að leita að því hérna, það er undir kaflanum um Alþingi, þar sem stendur í 62. gr.: „Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.“ Ekki eru neinar kröfur um að þeir kunni að lesa eða nokkurn skapaðan hlut, hvað þá að þeir séu löglærðir. Mér þætti betra ef þeir væru löglærðir.

Svo finnst mér mjög slæmt ef Alþingi sjálft er að kjósa nefnd þar sem gætu verið þingmenn sjálfir, það er ekki einu sinni undanskilið. Þetta gætu allt verið þingmenn, það stendur: „Þingnefnd eða fjórðungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá …“ Þetta er í rauninni stjórnlagadómstóll, frú forseti, eins og Þýskaland hefur. Það hefur reynst alveg frábærlega vel að mínu mati. Af hverju í ósköpunum höfum við þetta ekki stjórnlagadómstól? Af hverju höfum við þetta ekki þannig að bæði þingnefnd eða ákveðinn hluti þingmanna geti vísað máli til Lögréttu eða stjórnlagadómstóls, ef menn vilja kalla það svo? Og af hverju köllum við ekki fullskipaðan Hæstarétt Lögréttu? Af hverju er ekki fullskipaður Hæstiréttur Lögrétta, allir dómarar Hæstaréttar myndi Lögréttu og mætti hugsanlega bæta við lagaprófessorum við háskóla eða eitthvað slíkt til að fá meiri dýpt? Og Lögrétta, þessi nýja, tæki afstöðu til lagafrumvarpa — ég held að það væri mjög til bóta. Ef einhver efi kæmi upp um að frumvarp standist stjórnarskrá er eins gott að fá það á hreint strax og Lögrétta tæki líka afstöðu til mála sem kæmu upp í gegnum dómskerfið til Hæstaréttar, þar sem aðilar héldu því fram að ákveðin lög stæðust ekki stjórnarskrá. Eins og var með öryrkjadóminn og kvótadóminn Þá hefði verið skemmtilegra að fullskipaður Hæstiréttur hefði tekið á því en ekki bara hluti hans.

Ég legg því til þá breytingartillögu og mun væntanlega koma með hana, þetta er allt saman enn þá í vinnslu, til nefndarinnar að Lögréttu verði breytt þannig að hana skipi fullskipaður Hæstiréttur og hún sé ekki tilnefnd af Alþingi og til hennar sé hægt að vísa frumvörpum sem einstakir þingmenn eða þingnefndir hafa efasemdir um að standist stjórnarskrá og síðan gætu mál sem kæmu upp í gegnum dómskerfi, um þau gæti líka verið fjallað í þessum stjórnlagadómstól eða Lögréttu. Mér finnst Lögrétta vera ansi gott nafn, eitthvað sem réttir af lög og setur þau í réttan takt við stjórnarskrána. Það finnst mér ekki slæmt.

Ég er ekki farinn að ræða um mannréttindi, ég er ekki farinn að ræða um hvernig stjórnarskráin er uppbyggð og annað slíkt, en vil benda aftur á hugmyndir mínar um að breyta breytingaákvæðinu einu sér og síðan gætu menn farið í það strax á næsta þingi að flytja annaðhvort heila nýja stjórnarskrá, ef mönnum sýnist svo sem færi þá í bindandi atkvæðagreiðslu, eða ekki.

Það sem menn gætu líka gert væri að koma með breytingar á 79. gr. einni sér og algerlega sjálfstæðar eða sjálfsagðar breytingar. Mér finnst alveg sjálfsagt og ég efast um að nokkur þingmaður sé á móti því að ákvæði sé um Hæstarétt í stjórnarskrá. Það er ekki talað um Hæstarétt í gildandi stjórnarskrá og mér finnst það vera mikill ljóður á henni. Svo mætti að sjálfsögðu taka út ýmis ákvæði sem eru villandi eins og það að forseti Íslands geri samninga við erlend ríki. Hann gerir það ekkert því að 13. gr. gildandi stjórnarskrár tekur það út, 13. gr. sem segir: „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt.“ Sem veldur því að menn geta aldrei túlkað 26. gr. Í 26. gr. getur forsetinn neitað að skrifa undir lög en samkvæmt 13. gr. á hann að láta ráðherra framkvæma vald sitt. Hann ætti því í rauninni að láta ráðherra neita að skrifa undir lög. Hvað gerist ef ráðherrann vill það ekki? Þá stendur það að hann láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þetta er mjög mótsagnakennt, 13. gr., 26. gr. og sú grein sem ég nefndi rétt áðan um að forseti lýðveldisins geri samninga við erlend ríki.

Þetta eru ábendingar mínar. Ég átti von á að þetta yrði málefnaleg umræða og formaður nefndarinnar mundi hlýða á mál mitt en kannski gerir hann það einhvers staðar annars staðar.