141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:04]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi hlutdeild er nú að hluta til byggð upp með áætlaðri aflaaukningu á komandi árum í þorski og síðan því að aðrar kvótasettar tegundir en þær sem fram undir hin síðustu ár hafa eingöngu lagt af mörkum í þágu hliðarráðstafana og jöfnunaraðgerða í kerfinu, þ.e. þorskur, ýsa, ufsi og steinbítur, munu núna leggja til hlutdeild þannig að byrðunum af hliðarráðstöfunum kerfisins verður dreift á allan útveginn. Ég held að orðin sé almenn samstaða um að það er réttlátara og sanngjarnara fyrirkomulag en fyrra fyrirkomulag. Það mun þýða að útkoma þeirra sem eru sérstaklega háðir bolfiskveiðum eða veiðum og vinnslu, þorskveiðum einkum og sér í lagi, þeir koma að breyttu breytanda betur út úr þessu en eldri hugmyndir hafa gengið út á. Aðrar greinar og aðrar kvótasettar tegundir leggja því meira af mörkum, þar á meðal stóru, sterku samsettu fyrirtækin með veiðiheimildir í uppsjávartegundum og öðrum tegundum en þessum fjórum sem ég nefndi áðan.

Ég tel að þetta sé betra fyrirkomulag og betri aðferð við að byggja upp þá hlutdeild í flokki 2 en (Forseti hringir.) fyrri hugmyndir og í betra samræmi við raunverulega afkomu og getu greinarinnar til að bera þetta.