141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[18:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Kvótaþingið hefur þann mikla galla að það gerir ráð fyrir því að menn leigi sér fiskveiðirétt til eins árs í senn. Það er auðvitað ekki neitt sem menn geta byggt á, það vitum við. Nútímasjávarútvegur krefst langtímaskipulags meðal annars með markaðsstarfi sem byggir á langtímanýtingarrétti og þess vegna er svo mikilvægt að menn falli ekki í þá gryfju að segja að kvótaþingið sé einhvers konar markaðslegt svar. Það er það ekki. Leigukvóti á rétt á sér, það er alveg hárrétt en það vita það hins vegar allir að af því er margföld reynsla að hann einn og sér getur ekki verið svarið sem þeir sem standa í útgerð þurfa að gefa bæði sínu starfsfólki og ekki síður úti á mörkuðunum.

Það er þess vegna sem ég segi: Það er vond aðferð að skerða meðal annars þau úrræði sem við þó höfum í fiskveiðistjórnarkerfinu og hafa verið í byggðarlegu tilliti vegna þess að það er alveg augljóst mál að þau byggðarlög sem verða fyrir skerðingunni, hvort sem það eru byggðarlög eins og Bolungarvík sem verður fyrir 500 tonna skerðingu eða byggðarlag eins og Grundarfjörður, meðal annars vegna skelbótanna sem Grundarfjörður hefur mjög byggt á, eða önnur byggðarlög sem ég nefndi dæmi um — þessum byggðarlögum verður ekki bara vísað inn á kvótaþing.

Hv. þingmaður spurði mig um strandveiðarnar hvort þær hafi ekki skipt máli fyrir Bolungarvík. Að sjálfsögðu skiptu þær máli fyrir Bolungarvík. (Gripið fram í: Nú?) Það eru 7 þús. tonn sem verið er að deila út með þessum hætti og það væri nú undarlegt ef þess sæist ekki stað, 7 þús. tonna úthlutun, með einhverjum hætti. En hins vegar ætti hv. þingmaður að muna eitt og það er þetta: Strandveiðarnar eru stundaðar þrjá til fjóra daga í mánuði yfir sumarmánuðina. Þetta er auðvitað ekki sá atvinnuvegur sem stendur undir heilsársbúsetu hringinn í kringum landið eins og til dæmis sérfræðingar í byggðamálum bentu okkur á. En ég er ekki að gera lítið úr strandveiðunum og ég get lýst því yfir að ég tel að halda eigi þeim áfram. (Forseti hringir.) En ég vil gera það með þeim breytingum að úthluta beri þeim fiskveiðirétti sem þar er með allt öðrum hætti en gert er í dag, og hv. þingmaður hefur varið það óréttlæti sem þar hefur ríkt öll þau ár sem strandveiðikerfið (Forseti hringir.) hefur verið við lýði. (ÓÞ: Þetta er kjaftæði.)