141. löggjafarþing — 78. fundur,  11. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:57]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talar mikið um nýsköpun og möguleika á nýsköpun og ég held að við séum öll sammála því að nýsköpun í sjávarútvegi er fyrir hendi og verður áfram. Mér finnst hann kannski ýja að því að eitthvað í frumvarpinu dragi úr möguleikum manna á að halda áfram á þeirri braut að auka nýsköpun og framlegð í sjávarútvegi. Ég sé ekki að það sé neins staðar fótur fyrir því. Ég tel þvert á móti að með löngum nýtingarleyfum fram í tímann sé verið að styrkja fyrirtæki til þess að skipuleggja sig og markaðssetja sínar afurðir með sem bestum hætti.

Mig langar að koma aðeins inn á fyrirtæki og stærð þeirra. Sér hv. þingmaður ekki líka möguleikana og fjölbreytileikann í mörgum minni fyrirtækjum, rétt eins og í annarri fyrirtækjaflóru þar sem einnig er hægt að byggja á arðsemi og hagkvæmni í minni fyrirtækjum þótt þau séu ekki af þeirri stærðargráðu sem stærstu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi eru nú í dag? Sér hann ekki möguleika á því einmitt fyrir hinar dreifðu byggðir að byggja sig upp og með því sé verið að auka þennan hlut í hluta 2 þar sem aðgengi og jafnræði er aukið frá því sem nú er? Er það ekki akkúrat til að styrkja þær stoðir? Telur hann ekki að það sé betra að hafa aðgengi að leigupotti ríkisins yfir allt árið frekar en að það sé undir einstaklingum í útgerð í dag komið hvort menn hafi einhvern aðgang að leigu á kvóta og á hvaða verði? Það hefur komið fram í greinargerð fjármálaráðuneytisins að við þá aðgerð að koma á leigupotti ríkisins muni leiguverð á kvóta lækka, telur hann (Forseti hringir.) ekki að það sé mikið til bóta?